Fasteignafélagið Kaldalón hagnaðist um 1.339 milljónir króna á síðasta ári, samanborið við 370 milljónir árið áður, og arðsemi eigin fjár var 20,6%. „Félagið hefur stækkað um 15% á hverjum ársfjórðungi og er stefnt að áframhaldandi vaxtartakti,“ segir í fjárfestakynningu vegna ársuppgjörsins.
Kaldalón stefnir á skráningu á aðalmarkað Kauphallarinnar í haust en félagið hefur verið skráð á First North-markaðinn frá því í ágúst 2019. Fyrir liggur viljayfirlýsing við Arion um sölutryggingu bankans á allt að 5 milljörðum króna í nýju hlutafé fyrir skráninguna á aðalmarkað. Stjórn Kaldalóns hefur heimild til að hækka hlutafé félagsins um allt að 3,5 milljarða króna að nafnverði í tengslum við skráningu en hækkunarheimildin gildir til 16. desember næstkomandi.
Tekjuberandi atvinnueignir í fyrirrúmi
Kaldalón bókfærði tæplega 233 milljónir króna í húsaleigutekjur sem koma að mestu frá hótelum komu inn í samstæðuna á síðari hluta ársins en félagið hefur að undanförnu lagt áherslu á tekjuberandi eignir. Á síðasta ári festi félagið kaup á fasteignum sem hýsa hótelin Storm, Sand Hotel og Room with a View að hluta.
Þá hefur félagið lagt aukna áherslu á kaup á vöruhúsi, iðnaðar- og geymsluhúsnæði. Í október tilkynnti Kaldalón samkomulag um kaup að andvirði tæplega 5 milljörðum króna á fasteignum að Suðurhrauni 10, sem hýsir meðal annars vöruhús Ikea, og Íshellu 1 ásamt fasteignum að Fiskislóð 23-23. Samstæðan keypti á síðasta ári vöruhúsnæði við Víkurhvarf 1 Kópavogi en eignin kemur inn í efnahagsreikning félagsins í lok þessa árs. Kaldalón á auk þess 50% hlut í geymsluhúsnæði að Tangavegi á Grundartanga sem hefur verið leigt undi gagnaver að hluta.
Í lok síðasta árs tilkynnti um Kaldalón um kaup á 13 þjónustustöðvum Skeljungs á og í nágrenni við höfuðborgarsvæðið fyrir 6 milljarða króna. Allt að 40% kaupverðsins verður greitt með hlutafjárútgáfu, en restin reiðufé.
„Árið einkenndist af umbreytingarferli. Félagið tók nýja stefnu á vormánuðum með áherslu á kaup tekjuberandi atvinnueigna. Umbreytingarferlið gengur vel og í lok árs er félagið að megninu til fasteignafélag. Áhersla er á fjárfestingar og útleigu á atvinnuhúsnæði til fyrirtækja og opinberra aðila á höfuðborgarsvæðinu. Uppbyggingararmur félagsins mun áfram vera til staðar en yfir tíma leggja meiri áherslu þróun tekjuberandi eigna í útleigu til fyrirtækja,“ segir í skýrslu stjórnar og forstjóra í ársreikningi félagsins.
Mynd tekin úr fjárfestakynningu Kaldalóns.
Eignir félagsins jukust úr 6,1 milljarði króna í 21,5 milljarða á milli ára. Eigið fé í árslok nam 8,4 milljörðum samanborið við 4,6 milljarða í árslok 2020. Skuldir Kaldalóns jukust úr 1,5 milljörðum í 13,1 milljarð á milli ára.
Jón Þór Gunnarsson, forstjóri:
„2021 var gríðarlega viðburðaríkt ár í sögu félagsins. Umbreytingarferli félagsins í fasteignafélag er komið vel á veg og félagið skilar sinni bestu afkomu frá upphafi. Tækifæri á markaði verða áfram nýtt og fyrirhugaður vöxtur eignasafns félagsins fram undan á árinu.