Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, hefur stofnað félag til að halda utan um verkefni sín eftir stjórnmálaferilinn.
Samkvæmt fyrirtækjaskrá ber sameignarfélagið nafnið Njólubaug slf. og hefur aðsetur í Reykjavík.
Samkvæmt skráningu er tilgangur félagsins víðtækur: fræðsla, kennsla, fyrirlestrar, fundarstjórn, ritstörf og ráðgjöf. Félagið er skráð sem sjálfstæður skattaðili.
Í stjórn situr Katrín sjálf og Gunnar Sigvaldason, eiginmaður hennar, er varamaður.
Katrín lét af embætti forsætisráðherra árið 2024 og fór í framhaldinu í framboð til forseta Íslands. Hún hlaut ekki kosningu en hefur haldið sig til hlés frá pólitísku sviðsljósi síðastliðið ár.
Hún hefur samhliða stjórnmálunum látið til sín taka á sviði bókmennta.
Árið 2022 gaf hún út glæpasöguna Reykjavík í samstarfi við rithöfundinn Ragnar Jónasson og fékk verkið mikið lof bæði innanlands og erlendis.
Útgáfan vakti athygli á því hvernig fyrrverandi forsætisráðherra blandaði saman stjórnmála- og menningartengdum ferlum.
Stofnun Njólubaugs bendir til þess að Katrín hyggist efla sjálfstæða starfsemi sína á sviði fræðslu og ritstarfa.
mbl.is greindi fyrst frá.