Kaupsamningur Reita fasteignafélags á fasteign að Lambhagavegi 7 í Reykjavík af ATP Holding ehf. var undirritaður í dag og öllum fyrirvörum vegna kaupanna hefur verið aflétt, að því er kemur fram í tilkynningu Reita til Kauphallarinnar.
Afhending hins selda miðast við 1. október. Um er að ræða 4.200 fermetra af nýju og vönduðu lagerhúsnæði sem er í útleigu að fullu og eru áætlaðar leigutekjur um 175 milljónir króna og áætlaður rekstrarhagnaður á ári um 155 milljónir króna.
ATP Holding ehf er í 92% eigu Róberts Wessman samkvæmt fyrirtækjaskrá í gegnum sænska félagið Alvogen Aztiq AB.
Heildarvirði kaupanna er 2,2 milljarðar króna og verður að fullu fjármagnað með handbæru fé og lánsfé.