Fjártæknifyrirtækið Inexchange Factorum AB í Svíþjóð keypti allt hlutafé í Inexchange ehf. á Íslandi í byrjun mánaðarins. Inexchange hefur frá stofnun árið 2010 verið í sameiginlegri eigu Inexchange Factorum AB og Miracle ehf.
„Með samruna félaganna getum við nú aukið verulega vöru- og þjónustuframboð okkar á Íslandi. Þetta veitir okkur tækifæri til að bjóða viðskiptavinum okkar enn fleiri og betri lausnir og þannig styrkja stöðu okkar á markaðnum,“ er haft eftir Ola Widegren, forstjóra Inexchange, í fréttatilkynningu.
Inexchange sérhæfir sig í miðlun rafrænna viðskiptaskjala á íslenska markaðnum.
„Sem hluti af 130 manna fyrirtæki, sem starfar í þremur löndum og er með öfluga þróunardeild verðum við enn sterkari og munum stórauka þjónustuframboð fyrir viðskiptavini okkar,“ segir Gunnar Bjarnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Inexchange. Gunnar mun starfa áfram hjá InExchange og verður starfsemi á Íslandi með óbreyttu sniði. Með sama teymi og sama háa þjónustustig.
Inexchange Factorum AB er í eigu norska hugbúnaðarfyrirtækisins Visma. Hjá Visma starfa um 15.800 manns hjá 180 fyrirtækjum í Evrópu og Suður-Ameríku.