NatWest bankinn hefur gengið frá kaupum á eignarhlut breska ríkisins í bankanum sjálfum fyrir um 1 milljarð punda en samkvæmt viðskiptablaði The Guardian er einkavæðing bankans á áætlun eftir að hætt var við útboð til almennra fjárfesta.
Í tilkynningu frá bankanum og breska ríkinu í morgun sagði að fjármálaráðuneytið, sem fer með eignarhlut ríkisins, ætti nú 11,2% hlut í bankanum en hluturinn var 14,2% fyrir helgi.
Salan fór fram eftir lokun markaða á föstudaginn og var kaupverðið um 3,81 pund á hlut og var keypt fyrir 1 milljarð punda eða um 179 milljarða íslenskra króna á gengi dagsins.
Breska ríkinu hefur gengið vel að losa um eignarhald sitt á bankanum í ár en ríkið átti um 38% hlut við árslok 2023.
Ríkinu hefur tekist að fá um 20 milljarða punda fyrir hluti sína í bankanum en breska ríkið tók yfir bankann í kjölfar efnahagshrunsins 2008.
Til stóð að selja eignarhlut ríkisins með hlutafjárútboði til almennra fjárfesta í vor en þær áætlanir voru settar á ís vegna þingkosninga í maímánuði.
Breska fjármálaráðuneytið hefur sagt að til standi að losa um alla hluti ríkisins í bankanum í kringum lok árs 2025 eða byrjun árs 2026 og verður það gert með fjölbreyttum hætti í samræmi við markaðsaðstæður svo hægt sé að fá sem mest fyrir hlutina.
Hluthafar NatWest samþykktu á hluthafafundi að kaupa um 15% hlut af ríkinu fyrir árslok en um er að ræða önnur endurkaup bankans fyrir lokuðum markaði.
Hlutabréfaverð NatWest hefur hækkað um 20% frá þingkosningunum í maí.