Brekkuás, eignarhaldsfélag Ragnheiðar Ástu Guðnadóttur, eiginkonu Benedikts Gíslasonar, bankastjóra Arion banka, og Iða Brá Benediktsdóttir, aðstoðarforstjóri Arion, keyptu í dag hlutabréf í bankanum að fjárhæð samtals 42 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Brekkuás keypti 200 þúsund hluti í Arion á genginu 158,5 krónur á hlut eða sem gerir 31,7 milljónir króna.
Iða Brá, sem gegnir einnig stöðu framkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs Arion, keypti 65 þúsund hluti fyrir 10,3 milljónir.
Arion banki birti uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung eftir lokun Kauphallarinnar á miðvikudaginn. Arion hagnaðist um 4,9 milljarða á þriðja fjórðungi og var um milljarði undir væntingum greiningaraðila, einkum vegna þess að fjármunatekjur voru neikvæðar um 1,3 milljarða á fjórðungnum.