Fjárfestingafélagið Digtal 9 Infrastructure (D9) hefur keypt fyrirtækið Verne Global, sem rekur gagnaver í Reykjanesbæ, á 231 milljón punda, eða um 40,7 milljarða króna. Meðal hluthafa Verne Global voru Stefnir og Novator Partners, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar.
„Þegar við stofnuðum Verne Global árið 2007 með vinum okkar hjá General Catalyst, þá höfðum við metnaðargjarnt markmið um að byggja fyrsta græna gagnaverið í heiminum sem myndi þjónustu heimsmarkaðinn,“ er haft eftir Birgi Már Ragnarssyni, framkvæmdastjóra hjá Novator Parnters í tilkynningu . „Nærri 15 árum síðar erum við mjög stolt af því að hafa náð markmiðum okkar.“
Um er að ræða fyrstu fjárfestingu D9 í gagnaveri. Thor Johnsen, framkvæmdastjóri stafrænna innviða hjá Triple Point, segir að gagnaver muni spila lykilhlutverk hjá félaginu.
„Gagnaver Verne Global á Íslandi eru meðal hreinustu gagnaverum með minnstu kolefnislosunina á heimsvísu,“ er haft eftir Johnsen í tilkynningu Verne.
Digital 9 Infrastructure (D9) var stofnað fyrr í ár. Félagið, sem er í stýringu hjá Tirple Point Investment Management, safnaði 300 milljónum punda, eða um 53 milljörðum króna, í hlutafjárútboði samhliða skráningu í London Kauphöllina í mars. D9 keypti í kjölfarið Aqua Comms, sem fjárfestir í sæstrengjum, fyrir 160 milljónir punda. D9 safnaði 175 milljónum punda, jafnvirði 30 milljörðum króna, til viðbótar í júní.
Fjárfestingafélagið hyggst ráðast í frekari hlutafjáraukningu á næstunni og stefnir á fjárfestingar í sex verkefni tengdum gagnaverum að fjárhæð 200 milljónum punda í heildina ásamt 470 milljónum punda í aðrar fjárfestingar í stafræna innviði.
„Við erum ofboðslega þakklát fyrir stuðninginn sem við höfum fengið frá fyrri hluthöfum (Stefnir, Novator Partners, Wellcome Trust og General Catalyst Partners),“ segir Dominic Ward, forstjóri Verne Global. „Það sem Verne Global hefur gert síðastliðin áratug er frábært afrek.“