Bandarískir hlutabréfamarkaðir soga til sín stærstu og efnilegustu fyrirtæki Evrópu á sama tíma og sögulegar kauphallir álfunnar dragast saman og missa slagkraft.
Sérfræðingar vara við að þróunin grafi undan samkeppnishæfni Evrópu, dragi úr fjárfestingum, ógni framtíð lífeyrissjóða og sparifjár almennings, samkvæmt The Wall Street Journal.
Samkvæmt gögnum frá Dealogic hafa einungis sex félög farið á markað í Bretlandi það sem af er ári og safnað alls 208 milljónum dollara – lægstu fjárhæð í þrjátíu ár.
Á meginlandinu hefur virði nýskráninga helmingast. Í Bandaríkjunum hefur fjármögnun með nýskráningum hins vegar aukist um 38 prósent og nemur nú um 40 milljörðum dollara.
Æ fleiri evrópsk stórfyrirtæki kjósa að sækja skráningu vestur um haf. Fjártæknifyrirtækið Klarna og örflöguhönnuðurinn Arm kusu að fara á markað í New York í stað London eða meginlandsins.
Greiðslufyrirtækið Wise og fjárhættuspilafyrirtækið Flutter hafa þegar fært skráningu sína yfir Atlantshafið og fleiri eru á leiðinni. Lyfjafyrirtækið AstraZeneca hefur auk þess tilkynnt um 50 milljarða dollara fjárfestingu í Bandaríkjunum fram til 2030 og vaxandi vangaveltur eru um hvort félagið færi einnig skráningu sína þangað.
Forstjóri Euronext, Stéphane Boujnah, segir stöðuna vera kalla á viðbrögð frá stjórnvöldum.
„Evrópa getur ekki látið sér nægja að vera svæðið milli Bandaríkjanna og Asíu,“ segir hann. Forstjóri Deutsche Börse, Stephan Leithner, bætir við að auðurinn verði til í Texas og Kaliforníu – ekki meðal evrópskra lífeyrissjóða – ef ekkert verður að gert.
Evrópskir markaðir glíma við lágar hlutabréfaverðmatstölur og varkára fjárfesta. Framvirkt verð/hagnaðarhlutfall S&P 500 er 22, en aðeins 13 í FTSE 100 og 15 í DAX.
Stjórnendur fyrirtækja laðast einnig að Bandaríkjunum vegna mun hærri launa. Forstjóri Flutter þrefaldaði laun sín eftir að félagið flutti skráningu sína til New York.
Árangurslaus viðbrögð
Þrátt fyrir mikla sparifjármyndun álfunnar skortir virk fjármagnskerfi.
Evrópsk heimili halda 70 prósent sparnaðar síns á bankareikningum með lága ávöxtun.
Bandarísk heimili byggja hins vegar upp eignir í gegnum hlutabréfaeign í lífeyrissjóðum á borð við 401(k)-kerfi. Þessi munur gerir fyrirtækjum auðveldara að afla fjármagns í Bandaríkjunum og ýtir undir frekari flutninga.
Evrópusambandið hefur árum saman reynt að samræma fjármagnsmarkaði álfunnar, en verkefnið hefur staðið í meira en áratug án þess að raunverulegur árangur hafi náðst. Bretar hafa brugðist við með afléttingu reglna og herferðum til að hvetja almenna fjárfesta til þátttöku, en hingað til án teljandi áhrifa.