Kauphöllin í Moskvu hefur stöðvað öll viðskipti með dal og evru eftir að Bandaríkin ákváðu að framlengja og útvíkka viðskiptaþvinganir sínar gegn Rússum í morgun.
Í desember í fyrra ákvað Joe Biden Bandaríkjaforseti að undirrita forsetatilskipun sem setti viðskiptaþvinganir á 1200 einstaklinga og lögaðila sem voru sagðir vera fjármagna með beinum eða óbeinum hætti stríðsrekstur Rússa í Úkraínu.
Aðgerðirnar ná nú til 4500 einstaklinga og lögaðila en þeir eiga allir í hættu á að vera meinaður aðgangur að fjármálakerfi Bandaríkjanna.
Rússar svöruðu með að loka aðgengi erlendra gjaldmiðla að Kauphöllinni í Moskvu og sagði Seðlabankinn að gengi rúblunnar myndi héðan í frá endurspegla gengið í viðskiptum á millibankamarkaði.
Samkvæmt Financial Times mun breytingin hafa neikvæð áhrif á innflutning og útflutning í Rússlandi.
Bankar í Kína og Tyrklandi sem eru enn í viðskiptum við rússneska banka eru einnig í hættu á að verða hluti af þvingunaraðgerðum Bandaríkjanna. Hætti þeir ekki öllum viðskiptum við Rússa verður þeim meinað aðgengi að bandaríska fjármálakerfinu og Bandaríkjadölum.
Janis Kluge sem vinnur hjá þýskum hugmyndabanka um öryggismál segir að það sé enn eftirspurn eftir því að gera viðskipti með evrur í Rússlandi.
„Ímyndaðu þér bæ á miðöldum þar sem markaðstorginu er allt í einu lokað. Það eru enn bændur á torginu reyna selja matvöru og þorpsbúar sem vilja versla matinn. Þeir þurfa bara núna að hittast í öllum krókum og kimum bæjarins,“ segir Kluge. „Það er það sem er að gerast í Rússlandi.“