Indverski viðskiptamaðurinn Viral Narendra Doshi, hefur fest kaup á hótelinu Eldey Airport Hotel á Ásbrú í Reykjanesbæ á 645 milljónir króna, í gegnum félag sitt Dev Real Estate.

Viral Doshi, sem búsettur er á Indlandi, rekur ferðaskrifstofuna Alps Voyage. Félagið sérhæfir sig í skipulögðum ferðum víðs vegar um Evrópu, þar á meðal til Íslands. Þetta er ekki fyrsta fjárfesting Doshi hér á landi, en Alps Voyage hefur frá því síðasta vor rekið veitingastaðinn Satvik Restaurant í Skaftafellsstofu.

Seljandi að húsinu og hótelinu, sem er við Lindarbraut 634, er félagið Björn ehf. sem er í eigu hjónanna Péturs Björnssonar og Margrétar Þorvaldsdóttur og fjögurra barna þeirra. Þau keyptu hótelið árið 2016, en Pétur segir hótelreksturinn ekki hafa hentað fjölskyldunni.

„Þegar við keyptum hótelið var það Heilsuhótel Íslands sem Jónína Ben stofnaði á sínum tíma. Tvær dætur okkar Margrétar sáu um rekstur hótelsins fyrstu árin en hótelreksturinn reyndist síðan ekki henta okkur fjölskyldunni sérstaklega vel,“ segir Pétur.

Nánar er fjallað um kaupin í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kemur út í fyrramálið.