Bandaríski tískuhönnuðurinn Tom Ford keypti stórhýsi í Chelsea hverfinu í London fyrir meira en 80 milljónir punda, eða sem nemur yfir 14 milljörðum króna. Um er að stærstu íbúðakaup ársins á breska húsnæðismarkaðnum, samkvæmt Bloomberg.
Húsið er staðsett á milli Hyde Park og norðanverðs árbakka Thames-árinnar. Seljandinn eignaðist húsnæðið fyrir 16 milljónir punda fyrir tveimur áratugum síðan.
Tom Ford efnaðist verulega þegar hann seldi tískumerkið sitt til bandaríska snyrtivörurisans Estée Lauder Companies í tæplega 2,8 milljarða dala viðskiptum í byrjun síðasta árs. Auðæfi Ford eru metin á 2,2 milljarða dala samkvæmt Forbes.
Bloomberg segir kaupin vera ein af fáum jákvæðum tíðindum á lúxusíbúðamarkaðnum í London í ár. Væntanlegar skattalagabreytingar ríkisstjórnar Verkamannaflokksins, sem munu hafa áhrif á erlenda auðmenn, hafa litað markaðinn upp á síðkastið.