Berkshire Hathaway, fjárfestingafélag Warren Buffett, hefur náð samkomulagi um kaup á tryggingafélaginu Alleghany Corporation fyrir 11,6 milljarða dala, eða sem nemur tæplega 1.500 milljörðum króna. Áætlað er að viðskiptin gangi í gegn fyrir lok árs.

„Berkshire verður hið fullkomna varanlega heimili fyrir Alleghany, fyrirtæki sem ég hef fylgst náið með í 60 ár,“ sagði Buffett sjálfur í tilkynningu.

Berskhire mun greiða 848 dala fyrir hvern hlut, sem er um 25% álag ofan á dagslokaverð félagsins á föstudaginn síðasta. Samkomulagið felur þó í sér 25 daga frest þar sem Alleghany má falast eftir og kanna önnur kauptilboð.