Keahótel hafa tekið við rekstri Hótel Grímsborga í Grímsnesi, með undirritun 20 ára samnings sem nær yfir alla starfsemi hótelsins. Grímsborgir eru tíunda hótelið undir hatti Keahótela, sem rekur fyrir hótel í Reykjavík, Akureyri, Vík og á Siglufirði.
„Við tökum við góðu búi og hlökkum til að vinna með frábæru starfsfólki Hótel Grímsborga, sem hefur náð einstökum árangri á undanförnum árum með góðri þjónustu og aðbúnaði,“ segir Páll L. Sigurjónsson, forstjóri Keahótela.
Grímsborgir verða í meginatriðum reknar í óbreyttri mynd en framkvæmdir við stækkun hótelsins hafa staðið yfir í vetur og nú eru risin fimm ný hús. Nýju húsin verða tekin í notkun í sumar og bætast við aðra gistiaðstöðu að Grímsborgum.
„Það er mikil eftirvænting í okkar hópi og það er gaman verða hluti af einni stærstu hótelkeðju landsins. Við munum bæði læra af öðrum hótelum innan keðjunnar og deila okkar reynslu og þekkingu, til að hámarka ánægju okkar gesta – hvort sem þeir halda hér upp á brúðkaupsafmælið sitt, mæta á vinnufundi eða eru á ferð um Gullna hringinn,“ segir Helga Guðný Margrétar, hótelstjóri á Hótel Grímsborgum.