Áskrifendur að Keldunni geta nú nálgast áætlað verðmat íslenskra fyrirtækja í nýrri verðmatsvél Keldunnar.
Matið er háð ákveðnum skilyrðum en er ætlað að sýna virði fyrirtækja sem byggt er á núvirtu áætluðu sjóðstreymi til eilífðar í íslenskum krónum.
Hugbúnaðarfyrirtækið Kóði greinir frá þessu á heimasíðu sinni.
Hægt að breyta ávöxtunarkröfu og eilífðarvexti
„Frjálst sjóðstreymi er reiknað út frá nýjasta ársreikningi ásamt ávöxtunarkröfu sem byggir á íslenskum og evrópskum markaðsgögnum. Hægt er að breyta ávöxtunarkröfu og eilífðarvexti fyrirtækisins en aðrar forsendur eru fastmótaðar.“
Samkvæmt Kóða er tilgangur verðmatsins einungis til fróðleiks, samanburðar og skemmtunar eingöngu en ekki til ákvörðunartöku um viðskipti. Keldan ehf. ábyrgist á engan hátt niðurstöður verðmats og ættu notendur því ekki að treysta á þær sem slíkar.