Hagnaður af rekstri Kemi ehf., sem að flytur inn og dreifir efna- og öryggisvörum, nam 83 milljónum fyrir árið 2021 í samanburði við 47 milljónir árið á undan.

Til samanburðar nam hagnaður félagsins 15,9 milljónum króna á árinu 2019, en félagið hefur haft miklar tekjur af sölu sóttvarna á síðasta ári eins og árið á undan, að því er kemur fram í ársreikningi. Reikna má með að verulegur samdráttur verði í sölu á slíkum vörum á næsta starfsári.

Velta félagsins jókst um 24% árið 2021 og var tæplega 1,25 milljarðar í árslok. Veltan var töluvert minni árið 2019, fyrir kórónuveirufaraldurinn, en þá nam hún 570 milljónum króna.

Þá jukust eignir um 18 milljónir á milli áranna 2020 og 2021, eða úr 470 milljónum í 488 milljónir. Eignirnar námu 264 milljónum króna árið 2019.

Eigið fé í árslok 2021 nam 174 milljónum sem að er 44% hækkun frá árinu 2020. Skuldir félagsins námu samtals rúmum 313 milljónum í lok árs 2021 og drógust saman um 12% á tímabilinu. Eiginfjárhlutfall félagsins var 36% í árslok.

Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði 40 milljón króna arður til hluthafa. Stærstu hluthafar Kemi ehf. eru þeir Hermann Sævar Guðmundsson með 37% hlut og Bjarni Ármannsson með 34% hlut.