Kerfisbilun hefur orðið hjá Microsoft sem er að hafa áhrif út um allan heim, samkvæmt breska ríkisútvarpinu BBC.
Flugvélar hafa verið kyrrsettar, greiðslukerfi banka og fjölmiðlar liggja niðri.
Breski sjónvarpsmiðillinn Sky News fór til að mynda úr loftinu samhliða því að öll flugumferð um flugvöllinn í Sydney í Ástralíu hefur verið stöðvuð. Þá hafa verslanir víða um heim greint frá því að þær geti ekki tekið greiðslum.
Kauphöllin í Lundúnum hefur einnig verið í vandræðum en samkvæmt BBC er Microsoft að vinna að lausn á vandanum.
Nýjustu fregnir herma að netöryggisfyrirtækið Crowdstrike hafi ætlað að keyra uppfærslu í gegnum kerfi Microsoft á heimsvísu sem olli algjöru kerfishruni víða um heim.
American Airlines, sem er stærsta flugfélag heims í farþegum talið, greinir frá því að allar flugvélar flugfélagsins hafi ekki fengið leyfi til flugtaks. American Airlines segir í tilkynningu að Crowdstrike beri ábyrgð á tæknilegum vandræðum flugfélagsins en BBC greinir frá.
Samkvæmt fréttariturum BBC í Póllandi er höfnin í Gdansk einnig ófær og hefur hún óskað eftir því að gámaflutningaskip leiti annað.
Þá hafa heimilislæknar í Bretlandi óskað eftir því að allir sem eru ekki alvarlega veikir haldi sig heim þar sem þeir þurfa nýta sér blað og penna til að gera sjúkraskýrslur sem er að valda töluverðum töfum.