Ketchup Creative var stofnað af þeim Sindra Jóhannssyni og Arnari Má Davíðssyni og hóf félagið starfsemi í upphafi árs 2018. Fyrirtækið hefur einbeitt sér að framleiðslu á efni í markaðs- og auglýsingagerð en með árunum hefur starfsemin orðið fjölbreyttari. Sindri segir félagið hafa verið mjög heppið með samstarfsaðila frá fyrsta degi.

„Sem auglýsingastofa höfum við starfað með fyrirtækjum á borð við Íslandsbanka, Landsvirkjun, Nocco, Bioeffect, UN Women. Þar hafa flest verkefnin snúið að framleiðslu á efni sem er birt á samfélags- og vefmiðlum fyrirtækjanna sjálfra,“ segir Sindri.

Ketchup Creative hefur sérhæft sig í að búa til svokallaða kostaða afþreyingu (e. branded entertainment). „Branded Entertainment hefur verið þýtt á íslensku sem mörkuð afþreying og er það hugmyndafræðin sem við vinnum eftir við gerð okkar auglýsingaefnis. Þar er markmiðið að framleiða efni sem áhorfendur horfa á að eigin frumkvæði en eru ekki neyddir til þess.“

Starfsemi Ketchup skiptist í tvö mismunandi félög. Móðurfélagið Ketchup ehf. á dótturfélögin Ketchup Creative ehf. sem heldur úti rekstri auglýsingastofu, og Ketchup Productions ehf. sem sérhæfir sig í framleiðslu á efni fyrir streymisveitur og sjónvarp. Framleiðsluarmur Ketchup, Ketchup Productions, hefur framleitt fjölmarga sjónvarpsþætti að undanförnu, þar á meðal LXS raunveruleikaþættina.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.