IS Haf fjárfestingar, sjóður í rekstri Íslandssjóða, komst að samkomulagi í fyrra um kaup á 40% hlut í tæknifyrirtækinu KAPP ehf. fyrir 700 milljónir króna.
Fyrirtækið var að fullu í eigu Freyssona ehf., félags Freys Friðrikssonar og Elfu Hrannar Valdimarsdóttur, í byrjun síðasta árs.
KAPP starfar við framleiðslu á ísvélum og fylgihlutum þeirra, sölu og uppsetningu á kæli- og frystikerfum, auk framleiðslulínu fyrir sjávarútveg.
Velta KAPP nam rúmum 2 milljörðum króna árið 2023 og jókst um 6,3% frá fyrra ári. Félagið hagnaðist um 74 milljónir króna í fyrra samanborið við 38 milljónir árið áður.
Eignir félagsins voru bókfærðar á 862 milljónir króna í árslok 2023 og eigið fé var um 334 milljónir.
Keyptu RAF í fyrra
KAPP gekk á fyrri helmingi síðasta árs frá kaupum á öllu hlutafé í tæknifyrirtækinu RAF ehf. sem sérhæfir sig í vélasmíði, innflutningi og þjónustu á tækjabúnaði fyrir sjávarútveg.
Í ársreikningi KAPP kemur fram að fjárfesting félagsins í RAF hafi numið 143 milljónum í fyrra.
Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaði vikunnar.