Álfabakki 8 ehf., félag í eigu Þórarins Arnars Sævarssonar, Gunnars Sverris Harðarsonar og Brynjólfs Smára Þorkelssonar, keypti á seinni hluta síðasta árs bíóhúsið að Álfabakka 8 af Árna Samúelssyni, stofnanda og forstjóra Sambíóanna.
Kaupverðið á eigninni, sem er 3.316 fermetrar, var 600 milljónir króna að því er segir í Morgunblaðinu í dag.
„Markmið okkar er ekki að rífa húsið heldur að finna ný not fyrir það eins fljótt og auðið er. Ef aðilar sýna því áhuga að nýta húsið munum við að sjálfsögðu taka vel í það,“ segir Þórarinn Arnar Sævarsson, einn kaupenda SAM-bíóhússins í Álfabakka 8 í samtali við Morgunblaðið.
Í umfjölluninni er rifjað upp upp þegar skemmtistaðurinn Broadway opnaði í kjallara hússins í nóvember 1981. Í mars 1982 hafði Árni Samúelsson síðan opnað Bíóhöllina á efri hæðum hússins og þótti það mikil tíðindi í sögu kvikmyndahúsa á Íslandi.