SÍA IV, framtakssjóður í rekstri Stefnis, hefur keypt meirihluta hlutafjár mjólkurvinnslunnar Örnu á Bolungarvík, auk þess sem sjóðurinn hefur skráð sig fyrir nýju hlutafé í félaginu í kjölfar viðskiptanna. Þetta kemur fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem hefur heimilað viðskiptin.

„Arna ehf. er mikilvægur smærri keppinautur á markaði fyrir mjólkurvörur, einkum vegna yfirburðarstöðu stærri keppinauta eins og MS og KS,“ segir á vef eftirlitsins.

Greint var frá kaupum SÍA IV Í Örnu fyrir mánuði síðan. Í tilkynningu kom fram að sjóðurinn hefði skráð sig fyrir nýju hlutafé auk þess að ákveðnir hluthafar hefði ákveðið að selja sjóðnum hluti sína í félaginu. Ekki var þó greint frá umfangi fjárfestingarinnar.

Hálfdán Óskarsson, framkvæmdastjóri Örnu, sagði ánægjulegt að fá Stefni inn sem kjölfestufjárfesti í félaginu. Þekking og reynsla Stefnis muni styrkja Örnu og gera félaginu kleift að grípa tækifæri á markaðnum og taka þannig næsta skref í vexti og uppbyggingu félagsins.

Jón von Tetzchner hefur verið aðaleigandi Örnu en hann átti 64% hlut í lok síðasta árs. Hálfdan Óskarsson, sem stofnaði Örnu árið 2013, var næst stærsti hluthafinn með 16% hlut í árslok 2023. Í ofangreindri tilkynningu kom fram að hann verði áfram hluthafi í Örnu.

Félagið Hvetjandi hf., sem hefur það að markmiði að styrkja atvinnuþróun með fjárfestingum í atvinnurekstri á Vestfjörðum, var fjórði stærsti hluthafinn með 5% hlut.

Hluthafar Örnu í árslok 2023

Hluthafi Eignarhlutur
Dvorzak Ísland ehf. 41%
Vivaldi Ísland ehf. 23%
Hálfdan Óskarsson 16%
Hvetjandi hf. 5%
Steinn O. Sigurjónsson 4%
Verkalýðs og sjómannafélag Bolungarvíkur 3%
Arna ehf. 3%
Kubbur ehf. 2%
Vestfirskir verktakar ehf. 2%
Verkalýðsfélag Vestfirðinga 1%

Arna er mjólkurvinnsla í Bolungarvík á Vestfjörðum sem sérhæfir sig í framleiðslu á mjólkurvörum án laktósa, sem framleiddar eru úr próteinbættri íslenskri kúamjólk. Fyrirtækið hefur einnig hafið framleiðslu á vörum úr höfrum undir merkjum Veru Örnudóttur árið 2021, sem selji hafraskyr og hafrajógúrt.

Rekstrartekjur Örnu námu ríflega 1,9 milljörðum króna árið 2023 sem samsvarar um 20% vexti frá fyrra ári. Arna hagnaðist um tæplega 36 milljónir króna á síðasta ári.