Heildartekjur BioEffect drógust saman um 6% milli ára og námu 2.155 milljónum króna í fyrra, samanborið við 2.292 milljónir árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 59 milljónum króna og tap eftir skatta var um 9 milljónir króna.

BioEffect rekur tekjusamdráttinn til versnandi efnahagsástands í Kína en tekjur vegna annarra markaða jukust um 6%. Kína var stærsti markaður félagsins árið 2023 og samanstóð þó að 17% af tekjum þess. Til samanburðar vó Kínamarkaður 7% af tekjum BioEffect í ár.

„Neysluhegðun í Kína hefur breyst á mjög stuttum tíma í kjölfar þess að kínversk stjórnvöld hafa hvatt neytendur til að velja kínverskar vörur umfram erlendar. BioEffect átti vel heppnað samstarf með kínverskum áhrifavöldum en breytingar á markaðnum hafa einnig gert erlendum vörumerkjum erfiðara fyrir með slíkt samstarf,“ segir í tilkynningu BioEffect.

Leggja nú megináherslu á Bandaríkin

Mesta söluaukningin hjá félaginu á árinu var í Bandaríkjunum og á Íslandi en fyrirtækið rekur sjálft starfsemi BioEffect á Íslandi, Bretlandi og í Bandaríkjunum. Dreifiaðilar eru 12 talsins og reka þeir 20 markaði.

Félagið segist nú leggja megin áherslu á að fylgja eftir góðum vexti í Bandaríkjunum. BioEffect telur að nýr 10% tollur hafi óveruleg áhrif á rekstur félagsins.

„Árið 2025 fer vel af stað en vissulega eru miklir óvissutímar,“ segir Liv Bergþórsdóttir, forstjóri BioEffect. „Félagið fagnar 15 ára afmæli í maí og af því tilefni bjóðum við sérútgáfu af EGF serum - fyrstu vöru félagsins, sem er enn sú allra vinsælasta og var á árinu 2024 valin ein af bestu húðvörum allra tíma af fagtímaritinu Women‘s Wear Daily (WWD.com). Alls eru BioEffect vörurnar orðnar 19 talsins og ný Power vörulína hefur gengið sérlega vel. Við leggjum mikla áherslu á Power vörulínuna í okkar sölu- og markaðsstarfi en hún er sérstaklega þróuð fyrir eldri húð,“ segir Liv.

„Helsti markhópur BioEffect hefur verið konur sem eru fjörutíu ára og eldri, en yngri viðskiptavinum fer fjölgandi eftir því sem vörum fjölgar. Þar má nefna rakakremið, EGF Day Serum og húðhreinsvörur eins og andlitshreinsi og EGF Essense. Við verðum líka vör við að karlmenn bæði yngri og eldri tileinki sér öfluga húðrútínu í auknum mæli. Karlmenn eru því vaxandi hópur, en vinsælustu vörurnar hjá yngri mönnum eru EGF Day Serum og rakakremið okkar, en í eldri hópnum eru EGF Power Serum og EGF Power Cream vörurnar lang vinsælastar“.

Stjórn félagsins var kosin á aðalfundi félagsins á mánudaginn. Í stjórn BioEffect sitja Sigríður Elín Sigfúsdóttir, Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, Guðbjarni Eggertsson, Knútur Dúi Kristján Zimsen og ný inn í stjórnina kemur Ragnheiður Guðmundsdóttir sem jafnframt tók við sem stjórnarformaður.