Kínversk stjórnvöld hafa tilkynnt að þau séu að hefja rannsókn á fatafyrirtækinu PVH, sem áður hét Phillips-Van Huesen Corporation. Fyrirtækið á meðal annars bandarísku tískumerkin Tommy Hilfiger og Calvin Klein.
Rannsóknin beinist gegn meintri mismunun fyrirtækisins gegn bómullarfyrirtækjum í Xinjiang en Bandaríkin bönnuðu allan innflutning frá svæðinu árið 2021.
Kínversk stjórnvöld hafa tilkynnt að þau séu að hefja rannsókn á fatafyrirtækinu PVH, sem áður hét Phillips-Van Huesen Corporation. Fyrirtækið á meðal annars bandarísku tískumerkin Tommy Hilfiger og Calvin Klein.
Rannsóknin beinist gegn meintri mismunun fyrirtækisins gegn bómullarfyrirtækjum í Xinjiang en Bandaríkin bönnuðu allan innflutning frá svæðinu árið 2021.
Þessi rannsókn kínverskra stjórnvalda er enn eitt dæmið um afstöðu þeirra gagnvart ásökunum vestrænna ríkisstjórna og mannréttindasinna um að bómull og aðrar vörur á svæðinu séu framleiddar með nauðungarvinnu af fólki innan Úígúra-þjóðflokksins.
Kínverska viðskiptaráðuneytið sakar fyrirtækið um að sniðganga bómull og aðrar vörur frá Xinjiang án nokkurra staðreynda um málið. PVH er með mikla starfsemi bæði í Bandaríkjunum og Kína en hefur ekki viljað tjá sig um málið.
Fyrirtækið segist uppfylla öll lög á þeim svæðum þar sem það stundar viðskipti en yfirvöld í Kína hafa gefið því 30 daga til að svara fyrir málið. Ef það gerist ekki gæti PVH endað á lista yfir svokallaðar „óáreiðanlegar einingar“ og gæti þurft að sæta refsingu.
Viðskiptaráðuneytið hefur þvertekið fyrir að rannsóknin tengist áformum bandarískra stjórnvalda um að banna tiltekna kínverska rafbílatækni.
Cullen Hendrix, sérfræðingur hjá Peterson Institute of International Economics, segir ekki ljóst hvað olli þessari rannsókn en telur líklegt að hún hafi þann tilgang að skaða orðspor PVH meðal kínverskra neytenda.
Þá sé einnig verið að senda skýr skilaboð til alþjóðlegra fyrirtækja um áhættuna á því að nauðbeygja sig og verða að óskum vestrænna ríkja. „Kína er að vissu marki að spenna vöðvana og minna ekki aðeins vestræn stjórnvöld, heldur líka vestræn fyrirtæki, á að það séu alltaf afleiðingar fyrir svona ákvarðanir,“ segir Hendrix.