Kínverska viðskiptaráðuneytið tilkynnti í dag sex nýjar gagnaðgerðir sem Kínverjar gætu tekið ef Donald Trump Bandaríkjaforseti lætur verða af því að leggja á 50% viðbótartolla á Kína á morgun.

Forsetinn tilkynnti þetta í gær í tengslum við þá 34% hefndartolla sem Kínverjar lögðu á innfluttar bandarískar vörur sem taka einnig í gildi í þessari viku.

Samkvæmt grein sem skrifuð var af Liu Hong, aðstoðarritstjóra Xinhua og forstöðumanni samskiptastöðvar samfélagsmiðla, hefur ríkisrekni fjölmiðillinn fengið uppfærðar upplýsingar um sex mögulegar aðgerðir sem kínversk yfirvöld gætu beitt:

  1. Tollar á bandarískar sojabaunir, dúrru og fleiri landbúnaðarvörur gætu hækkað verulega.
  2. Innflutnings- og sölubann á bandarískum kjúklingi.
  3. Riftun á samstarfssamningi Kína og Bandaríkjanna um fentanýl.
  4. Gagnkvæmar takmarkanir í vöruviðskiptum og takmörkun á lögfræðiráðgjöf fyrir bandarísk fyrirtæki í Kína.
  5. Bann á innflutningi bandarískra kvikmynda.
  6. Rannsókn á hugverkaréttindum og hugverkaávinningi bandarískra fyrirtækja í Kína.

Algjört bann á innflutningi bandarískra kvikmynda til Kína myndi reynast iðnaðinum töluvert högg en miðasala bandarískra kvikmynda í Kína nam 585 milljónum dala á síðasta ári. Það samsvarar um 3,5% af þeirri 17,71 milljarða dala miðasölu í öllu landinu.

Bann myndi einnig hafa áhrif á væntanlegar bíómyndir á borð við Jurassic World: Rebirth, The Accountant 2 og Mission Impossible en þær myndir gætu tapað hundruðum milljóna dala vegna bannsins.