Kínversku samfélagsmiðlarnir WeChat og TikTok hafa fengið leyfi til að halda áfram rekstri í Malasíu en þau eru fyrstu fyrirtækin til að uppfylla nýjustu reglur í landinu sem eru ætlaðar til að auka netöryggi í Malasíu.
Malasíska samskipta- og margmiðlunarnefndin sagði í gær að kínversku tæknifyrirtækin sem reka miðlana, Tencent og Bytedance, hefðu bæði fengið leyfi og uppfyllt allar kröfur sem kynntar voru á síðasta ári.
Þá segir í fréttaflutningi WSJ að Telegram komi til með að tryggja sér leyfi fljótlega og er enn verið að skoða umsókn Meta fyrir Facebook, Instagram og WhatsApp. Nefndin segir hins vegar að hvorki X né YouTube, sem rekið er af Google, hafi lagt fram umsókn.
Hin umræddu lög, sem samþykkt voru í júlí í fyrra, krefjast þess að samfélagsmiðlar og skilaboðakerfi með meira en átta milljónir notenda í landinu fái sérstakt leyfi til að starfa. Reglurnar eiga að auka viðleitni og efla öryggi á netinu, sérstaklega fyrir börn og viðkvæma hópa.
Þá segir einnig að búið sé að vara við hugsanlegum málssóknum gegn þeim fyrirtækjum sem ekki höfðu fengið leyfi fyrir 1. janúar.