Samkvæmt The Wall Street Journal er læknastéttin í Bandaríkjunum klofin um eðli starfsins um þessar mundir.

Læknar eru sagðir vera að rökræða sín á milli um hvort það að vera læknir sé venju­legt starf með hefðbundnum vinnutíma eða köllun þar sem færðar eru fórnir í þágu sam­félagsins.

Sam­kvæmt WSJ hefur svarið fram að þessu verið skýrt en læknar hafa sætt sig við langa vinnu­daga og fært miklar fórnir í þágu sjúklinga. Þeir gerðu þetta vitandi að kollegar þeirra væru að gera slíkt hið sama.

Ný kynslóð lækna lítur á starfið öðrum augum og hefur verið að efast um þessa ára­tugalöngu vinnustaða­menningu.

Dr. Jef­fer­son Vaug­han, sem er 63 ára skurðlæknir hjá Jupiter Medi­cal Center í Flórída, segir í sam­tali við WSJ að hann og aðrir læknar á hans aldri séu að sinna fleiri auka­vöktum á bráðamóttökunni en yngri læknar.

Hann segist vera á bak­vakt á bráðamóttökunni fimm til sjö kvöld á mánuði líkt og aðrir skurðlæknar á hans aldri á meðan yngri kollegar þeirra taka engar slíkar vaktir og vilja ein­blína á sér­hæfðari skurðað­gerðir.

„Þetta eru bara við gömlu karlarnir sem erum á bak­vakt á bráðamóttökunni meðan þrítugir læknar eru heima á hverju kvöldi,“ segir Vaug­han og bætir við að þessi þróun hugnist eldri læknum afar illa.

Sam­kvæmt bandarísku lækna­samtökunum (AMA) segjast um helmingur allra lækna finna fyrir ein­hvers konar kulnun í starfi.

Yngri læknar í Bandaríkjunum hafa verið að kalla eftir fyrir­sjáan­legri vinnutíma en þeir segja að ójafn­vægi heimilis­lífs og starfsins sé óþarfi.

Dr. Kara- Grace Le­vent­hal, 40 ára læknir sem vinnur á spítala með föstum vöxtum, segir marga lækna á hennar aldri eiga ung börn sem þurfi einnig að sinna sam­hliða vinnu.

„Við þurfum að hugsa fyrst um okkur sjálf áður en við getum hugsað um aðra,“ segir Le­vent­hal.

Heil­brigðis­kerfið í Bandaríkjunum hefur breyst tölu­vert á síðustu árum og starfa nú fleiri læknar en áður á spítölum eða stórum heil­brigðis­stofnunum en í einka­rekstri.

Aukin pappír­svinna og aðrar kröfur yfir­valda hafa aukið stress meðal lækna og segja þeir að starfið sé mun minna gefandi en áður.

Meðallaun um fjórar milljónir á mánuði

Sam­kvæmt AMA er meðal­vinnu­vika læknis 59 klukkutímar og meðal­laun þeirra eru um 350 þúsund dalir á ári. Sam­svarar það um 47 milljónum króna í árs­laun eða um 3,9 milljónum á mánuði.

Hægt er að lesa meira um málið hér.