Aðilar almenna vinnumarkaðarins fylgjast vel með þróun mála í kjaraviðræðum kennara og lækna. Ástæðan er ekki síst sú að staðan á vinnumarkaði minnir um margt á stöðuna fyrir tíu árum en þá fóru kennarar og læknar í verkfall og í kjölfarið varð upplausn á almenna vinnumarkaðnum.

Á fyrri hluta ársins 2014 tókust samningar á almenna vinnumarkaðnum, þar sem samið var um 2,8% launahækkun. Vegna óvissu í efnahagsmálum var einungis samið til eins árs. Seinna þetta sama ár, 2014, hófst kjarabarátta lækna og kennara.

Báðar stéttirnar fóru í verkfall áður en samningar tókust en í þeim var samið um 30% launahækkun. Í kjölfarið logaði allt í verkföllum í almenna vinnumarkaðnum. Í maí 2015 náðust loks samningar á almenna markaðnum, þar sem samið var um allt að 7,2% launahækkun og til viðbótar var stór aðgerðarpakki frá ríkisstjórninni.

Spurð hvort atvinnulífið gæti nú staðið undir sambærilegum samningum og gerðir voru á almenna markaðnum árið 2015 svarar Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins: „Við þekkjum allt of vel afleiðingarnar af því þegar laun hækka umfram framleiðni og verðbólgumarkmið, það er kominn tími til þess að við tileinkum okkur ný vinnubrögð og breytum hegðun. Það er hvorki einfalt né auðvelt en það er einfaldlega of mikið í húfi fyrir bæði atvinnulífið og heimilin, við skulum ekki glutra niður tækifærinu til þess að ná efnahagslegum stöðugleika."

„Það er sameiginlegur þjóðarvilji til þess að brjótast út úr vítahring innistæðulausra launahækkana, sjá verðbólguna minnka og skapa skilyrði fyrir því að stýrivextir haldi áfram að lækka," segir Sigríður Margrét. „Það sýna kannanir bæði á meðal almennings og fyrirtækja. Verðstöðugleiki skiptir fólk og fyrirtæki máli, þannig getum við gert framtíðaráætlanir sem halda."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.