Íslenska lyfjafyrirtækið Coripharma hefur á síðustu vikum hafið útflutning á þremur nýjum samheitalyfjum á evrópska markaði. Lyfin sem um ræðir eru samheitalyfin Bosutinib (við hvítblæði), Teriflunamide (við MS sjúkdóminum) og Sapropterin (við efnaskiptasjúkdómi). Lyfin eru markaðssett af stórum evrópskum samheitalyfjafyrirtækjum og eru þau seld til 20 mismunandi Evrópulanda.

Íslenska lyfjafyrirtækið Coripharma hefur á síðustu vikum hafið útflutning á þremur nýjum samheitalyfjum á evrópska markaði. Lyfin sem um ræðir eru samheitalyfin Bosutinib (við hvítblæði), Teriflunamide (við MS sjúkdóminum) og Sapropterin (við efnaskiptasjúkdómi). Lyfin eru markaðssett af stórum evrópskum samheitalyfjafyrirtækjum og eru þau seld til 20 mismunandi Evrópulanda.

Coripharma hefur nú lokið við þróun á 15 samheitalyfjum og hjá fyrirtækinu starfa um 200 starfsmenn.

Þá mun félagið einnig hefja sölu á samheitalyfinu Raltegravir (við HIV veirunni) í október og er viðskiptavinur Coripharma fyrsta samheitalyfjafyrirtækið til að fá samþykki evrópskra yfirvalda til markaðssetningar á því lyfi.

„Verðmæti fyrstu afhendinga þessara lyfja eru í samræmi við áætlanir félagins en alls munu fimm lyf, þróuð og framleidd af Coripharma, fara á markað á þessu ári. Félagið er því í örum vexti og munum við auka útflutning á okkar eigin þróuðu lyfjum til muna á milli ára,“ segir Jónína Guðmundsdóttir, forstjóri Coripharma.

Samhliða markaðssetningu á nýjum lyfjum tekur Coripharma þátt í stærstu lyfjaráðstefnu heims, Convention of Pharmaceutical Ingredients (CPhI) dagana 8. – 10. október. Ráðstefnan, sem nú er haldin í Mílanó, er sú stærsta sinnar tegundar með um 62.000 þátttakendur frá yfir 160 löndum.

Þrettán starfsmenn Coripharma taka þátt í ráðstefnunni. Yfir 2.400 fyrirtæki verða með bása á sýningunni. Þátttaka á sýningunni undirstrikar áætlanir félagsins um að koma fjórum nýjum lyfjum á markað árlega, í samstarfi við önnur lyfjafyrirtæki.

© Aðsend mynd (AÐSEND)