Fjárfestar víðs vegar um heim eru byrjaðir að átta sig á því að kopar er orðinn meðal eftirsóttustu eðalmálma á heimsvísu er heimsbyggðin rafvæðist og fjarlægist jarðefnaeldsneyti.
Samkvæmt The Wall Street Journal hafa námuvinnslufyrirtæki notið góðs af hækkandi gullverði síðustu misseri en fyrirtækin eru um þessar mundir að nýta hagnað af hækkandi gullverði til að fjárfesta í kopar.
Gullframleiðendur líkt og Newmont og Barrick Gold hafa verið stórtækir á koparmarkaðinum upp á síðkastið með bæði yfirtökum og fjárfestingum en kopar er gríðarlega mikilvægur málmur fyrir rafbíla, vindtúrbínur og sólarrafhlöður.
The Wall Street Journal segir að Barrick sé að stefna að því að verða einn stærsti koparframleiðandi í heimi en kanadíska fyrirtækið er með koparnámuvinnslu bæði í Pakistan og í koparbeltinu í Zambia.
Mark Bristow, forstjóri Barrick Gold, tilkynnti fjárfestum í nóvember að stefnt sé að því að gera námugröftinn í Pakistan að einni af stærstu koparnámum heims árið 2028.
Bandaríska fyrirtækið Newmont sótti fram í koparnámuvinnslu í haust með því að kaupa ástralska koparnámufyrirtækið Newcrest Mining fyrir rúmlega 15 milljarða bandaríkjadali.
Tilraunaboranir Amaroq lofa góða
Íslenska námuvinnslufyrirtækið Amaroq minerals, hóf tilraunarboranir á þriðja ársfjórðungi í Sava-koparbeltinu í Grænlandi en félagið fékk tvö ný leyfi til jarðefnaleitar á Suður-Grænlandi í haust.
Meðal þeirra var leit í Nunarsuit sem tengir saman mögulega koparvinnslu í Sava við fyrirliggjandi Josva-koparnámuna í Kobbermineburgt til vesturs.
Í byrjun árs 2023 birti Amaroq niðurstöður rannsókna frá árinu áður á þróunarsvæðinu Kobberminebugt á Suður-Grænlandi. Sýni sem voru tekin við Josva-kopnarnámuna voru með allt að 4,2% koparmagn á 2,5 metra breiðu belti og allt að 11,6% koparmagn á ríflega 50 sentímetra breiðu belti.
„Félagið heldur áfram rannsóknum á svæðum sem innihalda efnahagslega mikilvæga málma og sýna þessar rannsóknir enn betur fram á jarðfræðilega möguleika Suður-Grænlands. Þessar niðurstöður benda til umtalsverðrar koparmyndunar í vesturenda steinefnabeltisins sem Amaroq er að kanna,“ sagði Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq, í tilkynningunni fyrir ári síðan.
„Hátt málmhlutfall í berginu við Kobberminebugt kemur ekki á óvart í ljósi sögulegrar smánámuvinnslu á svæðinu og teymið okkar vinnur nú náið að því að bera kennsl á fleiri æðar og svæði sem hægt er að vinna. Markmiðið er að finna nægilegt vinnanlegt magn af kopar til að tryggja hagkvæmni framtíðarvinnslu á svæðinu. Við munum halda áfram rannsóknum á þessu ári og ég hlakka til að kynna fleiri jákvæðar niðurstöður um þetta á næstunni,” bætti Eldur við.