Greiðslukortavelta í febrúar nam alls rúmum 75,7 milljörðum króna og jókst um 17,3% á milli ára. Kortavelta erlendra ferðamanna hefur aldrei mælst meiri í febrúar frá því að mælingar hófust árið 2012 en veltan fimmtánfaldaðist frá fyrra ári. Þetta kemur fram í mánaðarlegri samantekt Rannsóknaseturs verslunarinnar.
Kortavelta Íslendinga hérlendis nam tæplega 65,8 milljörðum í febrúar og dróst saman um 4,1% frá sama tímabili árið áður. Innlend kortavelta í verslun dróst saman um 2,2% á milli ára og nam 35,7 milljörðum. Innlend kortavelta í verslun á netinu jóskt um 32,7% á milli ára og nam 2,9 milljörðum. Innlend kortavelta í þjónustu jókst um 12,7% og nam 30 milljörðum.
Velta innlendra greiðslukorta í verslunum og þjónustu erlendis nam 14,3 milljörðum króna í janúar síðastliðnum sem er hækkun um 6,2 milljarða króna frá fyrra ári að raunvirði.
Kortavelta erlendra ferðamanna hérlendis nam rúmum 9,9 milljörðum króna í febrúar. Um er að ræða 37% aukningu frá janúar og borið saman við febrúar 2021 tæplega sjöfaldaðist veltan miðað við breytilegt verðlag. Hlutfall erlendrar kortaveltu af heildarkortaveltu á Íslandi var 13,1% í febrúar en sama hlutfall var 19,4% í febrúar 2020.
Ferðamenn frá Bandaríkjunum eru ábyrgir fyrir 28,2% af allri erlendri kortaveltu hérlendis í febrúar. Bretar og Frakkar fylgja næstir með 23,1% og 6,5% hlutdeild.
Leiðrétt: Villa kom upp við gagnavinnslu RSV í febrúar sem leiddi til verulegrar skekkju í gögnum. Rannsóknasetur verslunarinnar birti leiðréttar tölur í kringum eittleytið í dag.