Korta­velta inn­lendra greiðslu­korta nam tæpum 104 milljörðum króna í janúar­mánuði sem er 3% aukning í krónum talið frá sama mánuði í fyrra.

Hins vegar ef leið­rétt er fyrir þróun verð­lags og gengis krónu skrapp korta­velta heimila hins vegar saman um 1,1% á milli ára í janúar, sam­kvæmt greiningar­deild Ís­lands­banka.

„Þessi þróun hefur verið gegnum­gangandi frá apríl síðast­liðnum og lýsir vel kólnun í inn­lendu eftir­spurninni hvað heimilin varðar,“ segir í greiningu bankans.

Korta­velta Ís­lendinga er­lendis jókst um nær 4% að raun­virði á sama tíma­bili en janúar­mánuður var annar mánuðurinn í röð þar sem korta­velta er­lendis jókst en fram að því hafði hún dregist saman sex mánuði í röð.

„Þrátt fyrir aukningu í korta­veltu er­lendis voru færri Ís­lendingar á far­alds­fæti í janúar en á sama tíma fyrir ári. Alls fóru 39 þúsund Ís­lendingar um Kefla­víkur­flug­völl í janúar­mánuði en árið 2023 var fjöldinn í janúar ríf­lega 41 þúsund, sem gerir 11% fækkun á milli ára. Það sem gæti skýrt þessa aukningu er til að mynda er­lend net­verslun sem gæti hafa aukist síðustu tvo mánuði. Einnig gæti verið að styrking krónu að undan­förnu hafi hleypt lífi í neyslu Ís­lendinga er­lendis,“ segir í greiningu bankans.

Við­snúningur var í þróun einka­neyslu á síðasta ári eftir hraðan vöxt árin tvö á undan.

Einka­neysla jókst um 2,5% á fyrri helmingi ársins en dróst saman á þriðja fjórðungi

„Við teljum lík­legt að einka­neyslan hafi einnig dregist saman á loka­fjórðungi ársins og benda korta­veltu­tölur fyrir þann fjórðung til þess. Við á­ætlum að einka­neyslu­vöxtur hafi verið 0,7% á síðasta ári,“ segir í greiningu bankans en Hag­stofan birtir þjóð­hags­reikninga fyrir allt árið 2023 í lok mánaðarins.