Áætlaður kostnaður við að færa nýja og gamla hafnargarðinn við Austurbakka í Reykjavík nemur um 500 milljónum króna.

Um það bil þrjár vikur eru síðan framkvæmdir hófust við að fjarlægja bæði gamla og nýja hafnargarðinn. Samkvæmt samkomulagi við Minjastofnun þarf fyrirtækið að færa gamla garðinn stein fyrir stein. Ekki er jafn mikil vinna við að fjarlægja nýja garðinn, en þar þurfti aðeins að merkja efstu röðina sem var með sérhöggnu grjóti, en allur eldri garðurinn var með sérhöggnu grjóti. Greint er frá þessu á Vísir.is í dag.

Kostnaðurinn við að fjarlægja hafnargarðinn er hinn sami og áætlað var að veita til hælisleitenda á árinu 2016 samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs, eða um 500 milljónir. Þó hefur verið bætt við fjárheimildir til hælisleitenda, en um það bil milljarði er bætt í málaflokkinn samkvæmt breytingatillögu meirihluta fjárlaganefndar.

Hafnargarðurinn var skyndifriðaður af Minjastofnun Íslands í september síðastliðnum. Eftir það voru deilur á milli ríkis og borgar sem endaði með því að Minjastofnun og Landstólpi náðu samkomulagi um að garðurinn fengi að njóta sín á meðal bygginganna sem á að reisa á Austurbakkanum.