Undir styrkri stjórn frumkvöðulsins Guðmundar Fertram Sigurjónssonar óx Kerecis og dafnaði en það var selt síðasta sumar á 180 milljarða króna. Kaupandinn var danska lækningafyrirtækið Coloplast.
Guðmundur Fertram, forstjóri Kerecis, segir að lykilatriði í velgengni fyrirtækisins hafi verið umskiptin úr að vera tæknifyrirtæki í að vera sölu- og markaðsfyrirtæki. Árangursrík nýsköpun tengist ekki eingöngu því að hafa þekkingu á tækni heldur allri virðiskeðjunni — hvernig verðmæti skapist í viðkomandi geira.
Guðmundur Fertram, forstjóri Kerecis segir að lykilatriði í velgengni fyrirtækisins hafi verið umskiptin úr að vera tæknifyrirtæki í að vera sölu- og markaðsfyrirtæki. Árangursrík nýsköpun tengist ekki eingöngu því að hafa þekkingu á tækni heldur allri virðiskeðjunni — hvernig verðmæti skapist í viðkomandi geira.
Spurður hvaða ákvarðanir þurfi að taka til að greiða leið nýrra hugmynda svarar Guðmundur Fertram: „Hugmyndir fæðast í krafti djúpstæðar þekkingar þeirrar atvinnugreinar sem viðkomandi starfar í og þekkingu á „vandamálum" greinarinnar. Þegar þekking manns eykst á „vandamálunum" opnast farvegir nýrra hugmynda.
Þessum farveg þarf að hlúa að; það er gert með umhverfi sem hvetur til nýsköpunar innan fyrirtækja og stuðningskerfi, sem sniðið er að fólki sem hefur djúpa sérþekkingu á tilteknum atvinnugreinum og býr til hugmyndir sem leiðir til rannsókna og þróun flókinna tækniverkefna sem breytt geta heiminum, en ekki bara þróun hugbúnaðarlausna og appa. Allt byggir þetta á að vinnuafl hafi réttu menntunina og innviðir séu til staðar.”
Lykillinn að betri lífsgæðum
Guðmundur Fertram segist hafa talað fyrir þeirri sannfæringu sinni að lykill betri lífsgæðum í harðbýlu landi eins og Íslandi sé kraftmikil nýsköpun á sem flestum sviðum og öflugar fjárfestingar í innviðum.
„Ég held að hugarfar sé almennt mjög jákvætt gagnvart nýsköpunarstarfsemi, sem byggir á rannsóknum og þróun,” segir hann. „Rétt menntun og rannsóknartengdir skattaafslættir skapa rétta umhverfið fyrir nýsköpun innan fyrirtækja. Rétt menntun og styrkir skapa rétta umhverfið fyrir sprotafyrirtæki.”
Að sögn Guðmundar Fertram skapa fjárfestingar í menntun, skattaafsláttum og Tækniþróunarsjóðsstyrkjum gríðarlegan ávinning fyrir þjóðina með aukningu skatttekja sem skili meiri fjármunum fyrir heilbrigðis og velferðarkerfið.
„Ýmislegt er á réttri leið á Íslandi nema helst menntamálin. Íslendingar njóta líklega einhvers besta stuðningskerfis við nýsköpun í heiminum. Skattaafsláttur, öflugt styrkjakerfi Tækniþróunarsjóðs og framboð fjármagns fyrir trúverðug verkefni.”
Þegar Guðmundur Fertram er spurður frekar út í menntamælin og hvað þurfi að bæta svarar hann: „Mjög hallar á menntakerfi okkar. Stjórnvöld hafa metnaðarfull áform um betrumbætur. Fyrstu umbótaskrefin í háskólakerfinu virðast lofa góðu. En engu að síður verður að gera mun betur í að byggja upp menntun í landinu. Atvinnulífið hefur kallað eftir verulegu átaki varðandi sterkara menntakerfi sem getur mætt áskorunum hraðra tækni-og samfélagslegra breytinga næstu áratuga. Þar verður nýsköpun og öflugra mentakerfi grunnur að efnahagslegri velgengni.”
Smíða þarf nýjar býr í menntakerfinu
Guðmundur Fertram segir að leggja þurfi miklu meiri áherslu á raunvísindi, verkfræði og tækninám, svokallað STEM-nám (e. Science, Technology, Engineering and Math education).
„Það þarf að taka stórar og erfiðar ákvarðanir frá grunnskólakerfinu og upp úr. Auka þarf áherslu á að grunnskólarnir séu menntastofnanir en ekki einvörðungu uppeldisstofnanir.
Við þurfum að smíða nýjar brýr í menntakerfinu. Skynsamlegt væri að tengja betur vinnumarkað og skólastofur landsins. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að ljá verkefninu „Stækkaðu framtíðina“ lið, þar sem fólk á vinnumarkaði er hvatt til að segja frá starfi sínu í skólastofum landsins. Með því yrði sjóndeildarhringur nemenda og ungmenna víkkaður og þeim fengju fyrirmyndir úr atvinnulífinu og sæju þannig meiri tilgang með náminu.”
Að sögn Guðmundar Fertram þarf á sama tíma að leggja mun meira til verkmenntunar.
„Breytt samfélag upplýsingatækni og gervigreindar kalla eftir öðrum færniþáttum fyrir atvinnulífið. Kallað verður eftir meiri greiningar- og nýsköpunarhæfni; virkni í námi og námsaðgerðum; lausnamiðaðri nálgun og gagnrýnni hugsun og greiningu. Nýir tímar kalla á meiri sköpunarkraft, hugmyndaauðgi, frumleika og frumkvæði; tæknihönnun og forritun, svo eitthvað sé nefnt. Meginatriðið er að menntakerfið þarf aukna mótun og aðlögun að nýjum tímum.”
Lærum af Nýja Sjálandi og Kanada
Guðmundur Fertram segir að menntakerfið þurfi einnig betur að endurspegla þá staðreynd að fimmti hver Íslendingur hafi erlendan bakgrunn.
„Í því liggur fjölbreytni sem ætti að verða verðmæti til að styrkja samkeppnishæfni á alþjóðavísu. Það kallar aftur á meiri viðurkenningu á nýtingu reynslu, þekkingu og menntun innflytjenda. Það krefur okkur um aukna skilvirkni ferla við mat og viðurkenningu náms, færni og starfsréttinda. Annars sóum við verðmætum.
Við þurfum að opna íslenskan vinnumarkað betur fyrir ríkisborgurum landa utan EES. Þar gætum við tekið okkur til fyrirmyndar s.k. punktakerfi sem notuð eru t.d. á Nýja Sjálandi og Kanada, þar sem framlag innflytjenda er metið eftir væntu efnahagslegu framlagi þeirra á atvinnumarkaði. Það myndi það skila ávinningi fyrir bæði samfélagið.”
Ráð til ungra frumkvöðla
Guðmundur Fertram segir að frumkvöðlar, sem eru að stíga sín fyrstu skref, þurfi að vera meðvitaðir um virðiskeðjuna. Á fyrstu árum verkefnis þurfi að kalla til hóp meðstofnanandi, sem hefur víðtæka reynslu á virðiskeðjunni.
„Oft skortir í upphafi fjármuni til að greiða þessum sérfræðingum, en upplagt er að leysa það með hlutafé og beintengja viðkomandi árangri verkefnisins,” segir hann. „Þetta gerði ég einmitt í Kerecis. Ég bjó til hóp sem í voru til að mynda einkaleyfalögfræðingur, læknar og aðrir með víðtæk sérþekkingu. Það var mjög mikilvægt að við hlið stofnanda var hópur sem gat hjálpað við að drífa verkefnið áfram.”