Sigríður Andersen, þingmaður Miðflokksins, segir það blasa við öllum að Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra sé „algjörlega ófært að ná samningum um nokkurn skapaðan hlut“.
„Hæstvirtum forsætisráðherra skortir algjörlega þennan eiginleika sem er nauðsynlegur í fari hvers forsætisráðherra á hverjum tíma að geta setist niður með fólki, miðlað málum og náð samkomulagi um mál sem ágreiningur er um,“ sagði Sigríður í umræðum um fundarstjórn forseta á Alþingi í dag.
Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, hafði tekið í sama streng og sagði Kristrúnu ekki hafa sést í þinghúsinu síðasta mánuð. „Það er hægt að telja þá klukkutíma sem [forsætisráðherra] hefur verið hér í þinghúsinu! […] Það er fordæmalaust.“
Ragnar Þór Ingólfsson, þingflokksformanns Flokks fólksins, svaraði Karli Gauta og sagði Kristrúnu hafa verið þingflokksformönnum meirihlutans meira og minna til taks í samningaviðræðum þeirra við þingflokksformenn minnihlutans.
„Hún hefur setið með okkur hér næturlangt og verið okkur til stuðnings í þessari vegferð,“ sagði Ragnar Þór.
Sigríður gerði þessi orð Ragnars Þórs að umræðuefni.
„[Hún] hefur verið hér í húsi án þess að gefa færi á sér eða óskað eftir og haft frumkvæði að fundum með öllum háttvirtum þingflokksformönnum - haft frumkvæði að því að ná samkomulagi um þinglok.
Hæstvirtan forsætisráðherra skortir allan myndugleika við stjórn hér í landinu. Það endurspeglast hér í skorti á hæfileikum til þess að ná samkomulagi við þingið.“
Sigríður endurtók þessa gagnrýni á samfélagsmiðlinum X.
Nú upplýsir Ragnar Þór Ingólfsson samningamaður um að forsætisráðherra sitji dægrin löng með þingmönnum stjórnarflokkanna til “skrafs og ráðagerða”. Með eigin þingmönnum!
— Sigríður Á. Andersen (@siggaandersen) July 10, 2025
Hvílíkur forsætisráðherra. Það er ekki að undra að henni sé fyrirmunað að semja um nokkurn skapaðan hlut.
Aðeins þrír fundir meðal formanna
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, benti skömmu áður á að fyrsti fundur flokksformanna á þingi hafi verið haldinn 16. júní, sá annar hafi verið haldinn 18. júní og sá þriðji hafi verið haldinn á þriðjudaginn síðasta, 8. júlí.
„Þetta er allur vilji formanna stjórnarmeirihlutans til þess að ræða hér við formenn stjórnarandstöðunnar. Þetta voru þrír fundir,“ sagði Guðrún.