Gengi ís­lensku krónunnar hefur styrkst frá miðjum febrúar eftir tíma­bundna lækkun í byrjun árs, sam­kvæmt nýjasta hefti Peninga­mála frá Seðla­banka Ís­lands.

Styrkingin tengist fyrst og fremst minnkandi eftir­spurn líf­eyris­sjóða eftir er­lendum gjald­eyri ásamt inn­flæði fjár­magns frá er­lendum fjár­festum sem keyptu inn­lend ríkis­bréf.

Á fyrri hluta ársins 2024 höfðu líf­eyris­sjóðir keypt er­lendan gjald­eyri fyrir um 80 milljarða króna, líkt og árið á undan.

Nú hefur sú fjár­festing minnkað veru­lega, meðal annars vegna upp­gjörs í kjölfar kaupa bandaríska félagsins John Bean Technologies (JBT) á Marel í janúar, þar sem stór hluti sölu­and­virðisins rann til líf­eyris­sjóða sem fengu greitt í er­lendum gjald­eyri.

Auk þess eiga líf­eyris­sjóðirnir eftir að fá greidda um 50 milljarða króna til viðbótar í gjald­eyri vegna upp­gjörs á HFF-bréfum ÍL-sjóðs, sem ný­lega var samþykkt. Þetta hefur dregið veru­lega úr nettó eftir­spurn þeirra eftir er­lendum gjald­eyri og stutt við krónuna.

Þrátt fyrir þetta hefur verið tals­vert út­flæði vegna greiðslu­korta­notkunar lands­manna er­lendis á fyrstu fjórum mánuðum ársins, meira en á sama tíma í fyrra.

Hins vegar hefur dregið úr fram­virkri stöðutöku með krónunni, sem bendir til þess að fjár­festar telji ólík­legt að gengi krónunnar hækki mikið frekar til skemmri tíma.

Seðla­bankinn telur að mikill óstöðug­leiki á alþjóð­legum fjár­málamörkuðum hafi áhrif á fjár­festingarákvarðanir líf­eyris­sjóða, sem kunna að bíða með frekari fjár­festingar er­lendis, og það styrkir stöðu krónunnar tíma­bundið.

Hins vegar er óvíst hvort þessi þróun haldi áfram, þar sem hún er háð ytri þáttum eins og vaxta­stigi, alþjóð­legri áhættu og inn­lendri neyslu­hegðun.