Gengi íslensku krónunnar hefur styrkst frá miðjum febrúar eftir tímabundna lækkun í byrjun árs, samkvæmt nýjasta hefti Peningamála frá Seðlabanka Íslands.
Styrkingin tengist fyrst og fremst minnkandi eftirspurn lífeyrissjóða eftir erlendum gjaldeyri ásamt innflæði fjármagns frá erlendum fjárfestum sem keyptu innlend ríkisbréf.
Á fyrri hluta ársins 2024 höfðu lífeyrissjóðir keypt erlendan gjaldeyri fyrir um 80 milljarða króna, líkt og árið á undan.
Nú hefur sú fjárfesting minnkað verulega, meðal annars vegna uppgjörs í kjölfar kaupa bandaríska félagsins John Bean Technologies (JBT) á Marel í janúar, þar sem stór hluti söluandvirðisins rann til lífeyrissjóða sem fengu greitt í erlendum gjaldeyri.
Auk þess eiga lífeyrissjóðirnir eftir að fá greidda um 50 milljarða króna til viðbótar í gjaldeyri vegna uppgjörs á HFF-bréfum ÍL-sjóðs, sem nýlega var samþykkt. Þetta hefur dregið verulega úr nettó eftirspurn þeirra eftir erlendum gjaldeyri og stutt við krónuna.
Þrátt fyrir þetta hefur verið talsvert útflæði vegna greiðslukortanotkunar landsmanna erlendis á fyrstu fjórum mánuðum ársins, meira en á sama tíma í fyrra.
Hins vegar hefur dregið úr framvirkri stöðutöku með krónunni, sem bendir til þess að fjárfestar telji ólíklegt að gengi krónunnar hækki mikið frekar til skemmri tíma.
Seðlabankinn telur að mikill óstöðugleiki á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hafi áhrif á fjárfestingarákvarðanir lífeyrissjóða, sem kunna að bíða með frekari fjárfestingar erlendis, og það styrkir stöðu krónunnar tímabundið.
Hins vegar er óvíst hvort þessi þróun haldi áfram, þar sem hún er háð ytri þáttum eins og vaxtastigi, alþjóðlegri áhættu og innlendri neysluhegðun.