Kaup­félag Skag­firðinga er að kaupa B. Jen­sen sem rekur slátur­hús, kjöt­vinnslu og verslun við Lóns­bakka, við Hörgár­sveit og Akur­eyri.

Sam­kvæmt Akur­eyri.neteru samningar langt komnir og vænta má að kaupin gangi í gegn á næstu vikum.

B. Jen­sen var stofnað árið 1968 af hjónunum Benny Albert Jen­sen og Jónínu Sigur­björgu Guðjóns­dóttir. Í dag er félagið í eigu Eriks, sonar þeirra hjóna, og eigin­konu hans, Ingi­bjargar Stellu Bjarna­dóttur en þau áttu fyrir­tækið ásamt börnum sínum.

Um 660 milljóna velta í fyrra

Sam­kvæmt síðasta árs­reikningi velti félagið 660 milljónum króna og skilaði 18 milljón króna hagnaði. Eignir félagsins voru bók­færðar á 313 milljónir. Í árs­lok 2023 námu skuldir félagsins 262 milljónum en þar af voru 117 milljónir skammtíma­skuldir.

„Ég get stað­fest að það eru al­var­legar viðræður í gangi milli KS og eig­enda B.Jen­sen um kaup hins fyrr­nefnda á hinu síðar­nefnda. Samningar liggja í raun fyrir en það er verið að hnýta lausa enda og gert er ráð fyrir að við­skiptin klárist á næstu 2-3 vikum,“ segir Ágúst Torfi Hauks­son, fram­kvæmda­stjóri Kjarnafæðis-Norð­lenska, við Akur­eyri.net.

En Kaup­félag Skag­firðinga keypti allt hluta­fé Kjarnafæðis/Norð­lenska í sumar.

Ágúst Torfi bætir við að með kaupunum verði bæði stór­gripaslátur­húsin í Eyjafirði á sömu hendi en mark­miðið með við­skiptunum sé að auka hag­kvæmni og ná fram hag­ræðingu í greininni.

„Við­skiptin eru ekki endan­lega um garð gengin og ótíma­bært að tjá sig í smá­at­riðum um hvernig málum verði fyrir komið í fram­haldinu enda tals­verð vinna fram undan við könnun val­kosta og fleira,“ segir Ágúst Torfi. „Það eru spennandi tímar fram undan og kaupin á B.Jen­sen eru mikilvægt skref í átt að frekari hag­ræðingu í greininni,“ segir Ágúst Torfi við Akur­eyri.net.