Þróunin í hagkerfinu hefur að undanförnu verið með þeim hætti að fleiri sjá rök fyrir því að peningastefnunefnd Seðlabankans lækki vexti í ágúst. Bæði Arion og Íslandsbanka hafa lækkað hagspár sínar að undanförnu meðal annars vegna samdráttar í ferðaþjónustunni. Á sama tíma herfur verðbólguálag á skuldabréfamarkaði lækkað merkjanlega og verðbólguvæntingar samhliða þeirri þróun.

Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir að þróunin undanfarið vera með þeim hætti að nefndarmenn peningstefnunefndar hljóti að skoða það alvarlega að lækka stýrivexti á vaxtarákvörðunarfundinum í ágúst.

Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka
Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Jón Bjarki bendir á að í sumarbyrjun hafi Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagt að tvö skilyrði þyrftu að vera uppfyllt til að vaxtalækkun í haust kæmi til greina. Í fyrsta lagi skýr merki um kólnun í hagkerfinu. Jón Bjarki segir engan vafa á þau merki séu til staðar:

„Nýjustu gögn á borð við kortaveltutölur, nýskráningar bifreiða, ferðamannafjölda, niðurstöður úr væntingakönnunum hjá heimilum og fyrirtækjum og þar fram eftir götunum eru meira og minna öll á þennan veg.

Hitti skilyrðið sem seðlabankastjóri nefndi í byrjun sumars væru skýrar vísbendingar um að verðbólguvæntingar færu þverrandi. Skuldabréfamarkaðurinn er farinn að endurspegla væntingar um lægri verðbólgu.

Jón Bjarki segir að lækkunin á skammtíma verðbólguálagi á skuldabréfamarkaðnum vafalaust vera nefndarmönnum peningastefnunefndar kærkomin en bendir að langtímaálagið sé enn ansi hátt:

„Það er stutt síðan skammtímaálagið á markaði lækkaði á núverandi slóðir, en ef það hækkar ekki að ráði á nýjan leik og hvað þá ef langtímaálagið fylgir í kjölfarið hlýtur peningastefnunefndin að skoða það alvarlega að taka fyrsta skrefið í vaxtalækkun í ágúst.“