Íslensk-hollenska hugbúnaðarfyrirtækið Five Degrees hefur vaxið hratt undanfarin ár og þjónustar nú fleiri en 40 banka. Viðskiptablaðið ræddi við Björn Hólmþórsson, sem stofnaði Five Degrees með Hollendingnum Martijn Hohmann árið 2009, fyrir sérblaðið Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri.
Sjá einnig: Bankarnir keppast um að fara í skýið
Björn og Martijn Hohmann kynntust hjá Landsbankanum í Lúxemborg þar sem Björn stýrði tölvudeild bankans og sá um tæknilegu hlið Icesave innlánaþjónustunnar í Hollandi. Martijn hafði umsjón með rekstri Icesave í Hollandi.
„Icesave er eitt skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið þátt í,“ segir Björn. „Líkt og hinir bankarnir á Íslandi hafði Landsbankinn tekið ákvörðun um að útvíkka innlánastarfsemi sína til að þurfa ekki að reiða sig á fjármögnun hjá öðrum bönkum. Mér leið alltaf þannig að ég væri í verkefni sem átti að fyrirbyggja hrun ef það væri hægt, en það tókst ekki því miður. Lausnin var hins vegar góð.“
Þremur vikum eftir fall Landsbankans í Lúxemborg hringdi Martijn í Björn og spurði hvort hann hefði áhuga á að taka lausnina á bak við Icesave lengra og búa til eigin banka. Þeir hittust yfir helgi í Liege í Belgíu og lögðu drög að Five Degrees.
„Við komumst fljótlega að því að það var eiginlega ekkert verið að gefa út ný bankaleyfi í Evrópu. Við tókum þá ákvörðun um að vinna fyrir aðra banka. Martjin sagði þessa fræknu setningu þegar við vorum að ræða við tilvonandi fjárfesta: „Við ætlum ekki að verða banki, heldur ætlum við að búa til banka“. Við höfum ekki litið til baka eftir það.“
Sérblaðið Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri kom út í vikunni. Blaðið er opið öllum og hægt er að nálgast það hér.