Úrvalsvísitalan OMXI15 hefur lækkað um 1,64% í fyrstu viðskiptum dagsins og stendur vísitalan í 2.259 stigum þegar þetta er skrifað.
Rauðar tölur eru víða í Kauphöllinni í morgun og leiðir Alvotech lækkanir. Hlutabréfaverð líftæknilyfjafyrirtækisins hefur lækkað um 4% í morgun í litlum viðskiptum og stendur gengið í 1540 krónum þegar þetta er skrifað.
Gengi fasteignafélagsins Reita hefur lækkað um tæp 4%. Hlutabréfaverð Eikar, Kviku, Heima og Ölgerðarinnar hefur lækkað um 2,5% í fyrstu viðskiptum dagsins.
Hlutabréfaverð Ísfélagsins hefur hækkað um 1% í afar lítilli veltu en það er eina félagið sem hefur hækkað með marktækum hætti í morgun.
Heildarvelta um hálf ellefu var um 440 milljónir.
Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um tóku hlutabréf í Asíu og Bandaríkjunum væna dýfu í gær en lokað var fyrir viðskipti í Kauphöllinni í gær vegna frídags verslunarmanna. Markaðir vestanhafs tóku örlítið við sér þegar leið á daginn í gær og tóku hlutabréf í Asíu við sér að nýju í nótt.