Kauphöllin opnaði rauð í morgun en ellefu félög hafa lækkað og Úrvalsvísitalan fallið um 0,8% í fyrstu viðskiptum.
Arion banki leiðir lækkanir en gengi bankans hefur fallið um 2,6% í ríflega 400 milljóna króna viðskiptum. Hlutabréfaverð Arion stendur nú í 150 krónum á hlut, sem er meira en 9% lægra en fyrir mánuði síðan.
Auk Arion hafa hlutabréf Sjóvár, VÍS, Icelandair, Haga og Reita lækkað um meira en 1% frá opnun Kauphallarinnar.
Hlutabréfaverð Haga hefur fallið um 1,4% í 31 milljónar króna viðskiptum og stendur nú í 71,5 krónum á hlut. Hagar birtu uppgjör eftir lokun markaða í gær. Þar kom fram að hagnaður á öðrum fjórðungi fjárhagsársins hafi numið 2,4 milljörðum.