Bílastæðaþjónustufyrirtækið Lagning ehf. við Keflavíkurflugvöll hefur verið auglýst til sölu á markaðstorginu Kennitalan.is.

Lagning var stofnað árið 2021 af Theódóri Ágústi Magnússyni, Jóhanni Eggertssyni, Írisi Hrund Sigurðardóttur og Sigurði Smára Gylfasyni. Fyrirtækið velti 148 milljónum króna og hagnaðist um 12 milljónir árið 2022, samkvæmt síðasta birta ársreikningi.

Bílastæðaþjónustufyrirtækið Lagning ehf. við Keflavíkurflugvöll hefur verið auglýst til sölu á markaðstorginu Kennitalan.is.

Lagning var stofnað árið 2021 af Theódóri Ágústi Magnússyni, Jóhanni Eggertssyni, Írisi Hrund Sigurðardóttur og Sigurði Smára Gylfasyni. Fyrirtækið velti 148 milljónum króna og hagnaðist um 12 milljónir árið 2022, samkvæmt síðasta birta ársreikningi.

Þjónustan felur í sér að viðskiptavinir afhenda Lagningu bifreið sína við Keflavíkurflugvöll áður en þeir leggja af stað í ferðalag sitt og fá bílinn afhentan aftur við komu. Bílnum er í millitíðinni lagt á vöktuðu og afgirtu bílastæði í Reykjanesbæ.

Til viðbótar við bílastæðaþjónustuna rekur Lagning einnig bónstöð, þar sem viðskiptavinir geta nýtt sér aukaþjónustu í þrifum á bílum sínum á meðan þeir eru í geymslu.

Stjórnendur Lagningar segjast hafa sett félagið í söluferli í ljósi þess að önnur verkefni þeirra krefjist aukinnar athygli. Hins vegar séu tækifæri fyrir annan rekstraraðila sem geti sinnt rekstrinum heilshugar að byggja ofan á þeim sterka grunni sem hefur verið lagður.

Reksturinn sé vel skipulagður, salan hafi gengið vel með öflugri markaðssetningu og vefkerfi félagsins hafi verið í stöðugri þróun síðustu ár. Lagning sé með sterka innviði sem bjóði upp á frekari vöxt og framþróun.

„Með áframhaldandi þróun á starfrænum lausnum og aukinni áherslu á þjónustu við viðskiptavini, sér Lagning fyrir sér tækifæri til að stækka þjónustuframboðið, bæði í bílastæðum og þrifum. Við teljum að aukinn fjöldi ferðalanga og vaxandi þörf fyrir þægindi og sveigjanleika á úrvali á bílastæðum við flugvöllinn muni halda áfram að knýja vöxtinn.“