Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) hefur komist að þeirri niðurstöðu að Landsbankinn, einn af söluráðgjöfum í lokuðu útboði á 22,5% hlut í Íslandsbanka í mars 2022, hafi gerst brotlegur við lög er varða flokkun viðskiptavina. Eftirlitið taldi þó ekki þörf á að beita viðurlögum.
Bankinn braut að mati eftirlitsins lög um markaði fyrir fjármálagerninga með því að meta eignir tveggja tilboðsgjafa í útboðinu – sem óskuðu samhliða eftir flokkun sem fagfjárfestar – ekki rétt, auk þess að staðfesta flokkun tveggja þeirra sem fagfjárfestar áður en formleg umsókn þess efnis hafði borist.
Eða eins og það er orðað í tilkynningu eftirlitsins: „Háttsemin fólst í því að hafa ekki metið verðgildi fjármálagerninga tveggja viðskiptavina með fullnægjandi hætti á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 54. gr. mffl., í tengslum við umsókn þeirra um að teljast fagfjárfestar hjá bankanum.“
„Jafnframt hafi Landsbankinn brotið lög með því að móttaka og skrá tilboð fjögurra viðskiptavina sem voru við móttöku og skráningu tilboðanna flokkaðir sem almennir fjárfestar og með því að staðfesta flokkun tveggja þeirra sem fagfjárfesta áður en skriflegar umsóknir um slíka flokkun bárust bankanum, en viðskiptavinirnir voru flokkaðir síðar sem fagfjárfestar.“
FME taldi ekki tilefni til að beita Landsbankann viðurlögum vegna brotanna „en við matið var m.a. horft til eðlis og umfangs brotanna“. Þá hafi Landsbankinn þegar gert úrbætur á þeim atriðum sem niðurstaða fjármálaeftirlitsins tekur til.
Til samanburðar var Íslandsbanki sektaður af FME um 1,2 milljarða króna í sumar vegna annmarka við framkvæmd útboðsins. Í kjölfarið lét Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, og tveir aðrir stjórnendur af störfum hjá bankanum. Jafnframt hættu þrír af sjö stjórnarmönnum bankans af störfum, þar á meðal stjórnarformaðurinn Finnur Árnason.
Niðurstöður lágu fyrir í nóvember
Fjármálaeftirlitið hóf í apríl 2022 athugun á framkvæmd Landsbankans útboðinu umrædda. FME segir að markmið athugunarinnar hafi verið að kanna hvort framkvæmd Landsbankans við veitingu fjárfestingarþjónustu í útboðinu hafi uppfyllt kröfur laga um markaði fyrir fjármálagerninga. Niðurstöður athugunarinnar lágu fyrir í nóvember 2023.
Til skoðunar var flokkun viðskiptavina, þ.m.t. upplýsingagjöf til viðskiptavina í tengslum við breytta flokkun, skráning og varðveisla símtala og annarra rafrænna samskipta og ráðstafanir vegna hagsmunaárekstra.
Ásamt Landsbankanum störfuðu HSBC Continental Europe, Fossar markaðir, ACRO verðbréf og Íslensk verðbréf sem söluráðgjafar í útboðinu.
Umsjónaraðilar útboðsins voru Citigroup Global Markets Europe AG, fyrirtækjaráðgjöf og verðbréfamiðlun Íslandsbanka og J.P. Morgan SE.