Hagnaður af rekstri Landsbréfa nam 188 milljónum króna á árinu 2014, samanborið við 187 milljóna króna hagnað fyrir rekstrarárið 2013. Hreinar rekstrartekjur námu 1.104 milljónum króna samanborið við 969 milljónir króna rekstrarárið 2013. Eigið fé Landsbréfa í árslok nam um 1.832 milljónum króna samanborið við 1.644 milljónir króna í lok árs 2013 og eiginfjárhlutfall var um síðustu áramót 53,76%. Landsbréf eru að nær öllu leyti í eigu Landsbankans.
Eignir í stýringu voru í árslok um 111 milljarðar króna samanborið við um 110 milljarða árið áður. Svarar þetta til tæplega 10,3% arðsemi eigin fjár. Í tilkynningu segir að á árinu hafi Landsbréf lokið við umfangmikil verkefni sem m.a. fólust í úrvinnslu eigna Horns fjárfestingafélags ehf. sem slitið var í árslok. Við það hurfu úr stýringu rúmir 12 milljarðar, en þrátt fyrir það jókst heildarfjárhæð eigna í stýringu milli ára. Alls eru um 12 þúsund einstaklingar og lögaðilar með fjármuni í sjóðum eða í eignastýringu hjá Landsbréfum.
Í tilkynningunni er haft eftir Helga Þór Arasyni, framkvæmdastjóra Landsbréfa að sjóðir fyrirtækisins hafi skilað fjárfestum almennt góðri ávöxtun á árinu 2014 og að rekstur Landsbréfa hafi skilað eigendum sínum góðri arðsemi. „Landsbréf eru stolt af því að axla þá ábyrgð sem felst í því að að annast stýringu á fjármunum yfir 12 þúsund viðskiptavina. Hjá Landsbréfum starfar reynslumikið og hæft starfsfólk sem leitast við að setja hagsmuni viðskiptavina félagsins í fyrirrúm, enda góður árangur og ánægðir viðskiptavinir forsenda góðs rekstrar.“