Landsvirkjun hefur ákveðið að nýta aðeins þjónustu frá einu alþjóðlegu lánshæfismatsfyrirtæki, S&P Global Ratings. Þar af leiðandi hefur Landsvirkjun sagt upp samningi sínum við Moody's. Greint er frá þessu í tilkynningu.

„Þessi ákvörðun kemur í kjölfar ítarlegrar endurskoðunar á þörfum Landsvirkjunar á þessu sviði. Niðurstaðan, sem var unnin með aðstoð erlendra ráðgjafa, var að eitt lánshæfismat væri nægjanlegt.“

Tilkynning kemur þremur vikum í kjölfar þess að Moody‘s hækkaði lánshæfismat Landsvirkjunar úr Baa1 í A3, skömmu eftir að lánshæfismatsfyrirtækið hækkaði á lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins. Samhliða breytti Moody‘s horfum á lánshæfi Landsvirkjunar úr jákvæðum í stöðugar horfur.

Þess má geta að Arion banki sagði í vor upp samningi sínum við alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings og ákvað að nýta sér aðeins þjónustu frá Moody's.