Í febrúar síðastliðnum seldust 13,4% allra íbúða á yfirverði samanborið við 9,9% í janúar. Í nýrri mánaðarskýrslu HMS er hækkunin rakin til fleiri íbúða sem seljast á yfirverði á höfuðborgarsvæðinu en 15% íbúða þar seldust á yfirverði í febrúar.

Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins seldust um 9,1% íbúða á yfirverði. Annars staðar á landinu var hlutfallið 11,8%.

HMS segir að kaupþrýstingur á höfuðborgarsvæðinu sé „langmestur“ í póstnúmerum 107 og 220, þ.e. í Vesturbænum og miðbæ Hafnarfjarðar.

Þar á eftir koma póstnúmerin 108 (Múlar), 111 (Breiðholtið), 113 (Grafarholt og Úlfarsárdalur) og 203 (Hvörf og Kórar), þar sem íbúðir seldust á yfirverði í yfir 20% tilfella.

Mynd tekin úr mánaðarskýrslu HMS.

Bendi til seljendamarkaðar á höfuðborgarsvæðinu

Birgðatími íbúða, þ.e. sá fjöldi mánaða sem tekur að selja núverandi framboð miðað við það sem var selt í mánuðinum á undan, styttist á milli mánaða á höfuðborgarsvæðinu um 2,1 mánuði í mars og er 3,2 mánuðir.

Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins styttist hann úr 7,8 mánuðum í 3 mánuði í mars. Annars staðar á landinu styttist hann úr 7,8 mánuðum í 5,5 mánuði.

Í skýrslu HMS segir að sé meðalbirgðatími fasteigna lengri en 6 mánuðir er það haft til marks um að það sé sterkur kaupendamarkaður. Ef tíminn er innan við 3 mánuðir er það haft til marks um sterkan seljendamarkað.

„Birgðatími íbúða bendir því til þess að markaður nú sé nálægt því að vera á valdi seljenda á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess, en að annars staðar á landinu sé fasteignamarkaðurinn nær því að vera á valdi kaupenda.“

Fjöldi kaupsamninga nærri tvöfaldaðist milli mánaða

Fjöldi kaupsamninga um íbúðarhúsnæði sem voru gefnir út í febrúar voru 80% fleiri í febrúar heldur en í janúar. Í febrúar voru gefnir út 990 kaupsamningar samanborið við 550 í janúar. Sé miðað við febrúar í fyrra voru kaupsamningarnir rúmlega helmingi fleiri í ár.

„HMS telur að aukin virkni á íbúðamarkaðnum á suðvesturhorninu sé tilkomin vegna íbúðakaupa Grindvíkinga í febrúar, en Alþingi samþykkti lög um kaup ríkisstjórnarinnar á íbúðarhúsnæði í bænum 23. febrúar síðastliðinn,“ segir í nýrri mánaðarskýrslu HMS.

„HMS telur að kaup íbúðaeigenda í Grindavík hafi haft áhrif til að skapa þrýsting á íbúðamarkaðinn og býst við að áhrifin verði enn meiri á næstu mánuðum.“

Vænta er að allt að 900 íbúðaeigendur sem áttu lögheimili í Grindavík selji fasteignir sínar til og kaupi aðra íbúð á fasteignamarkaði.

Mikil umsvif í mars

Hvað varðar stöðuna fasteignamarkaðnum í mars kemur fram að gögn um fasteignaauglýsingar gefi vísbendingu um að umsvif hafi verið mikil. Margar íbúðir voru teknir úr birtingu af auglýsingasíðum fasteigna.

Alls voru 1.215 fasteignir teknar úr sölu í mars, en í febrúar voru þær 1.420 talsins. Til samanburðar voru þær undir 800 í nóvember og desember á síðasta ári.

Um 3.200 íbúðir eru til sölu á landinu öllu þar af eru um 1.900 íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu. Framboðið hefur dregist saman um 100 íbúðir það sem af er ári og mest hefur framboð nýrra eigna dregist saman á höfuðborgarsvæðinu.