Íslendingar hafa veðjað tugum milljóna króna á alþingiskosningarnar sem haldnar verða 30. nóvember næstkomandi, samkvæmt talsmönnum veðbankanna Coolbet og Epicbet.
Stuðlar á kosningarnar voru opnaðir 15. október hjá veðbönkunum tveimur. Þar er hægt að veðja um allt mögulegt er varðar kosningarnar, um atkvæðaprósentu og fjölda þingmanna flokkanna, næsta forsætisráðherra og hvort tiltekinn einstaklingur komist inn á þing, svo eitthvað sé nefnt.
Daði Laxdal Gautason, hjá Epicbet, segir að meðal einstaka frambjóðenda sé langmesta veltan á Snorra Másson, oddvita Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður. Spurður hvernig hann túlki það, hvort það sé vegna áhuga á Snorra eða hvort stuðullinn sé einfaldlega bara svona sanngjarn segir Daði líklega bæði koma til.
„Fólki virðist finnast þetta vera gefins peningur. Stuðullinn er núna 1,10 og fólk er enn þá að veðja á þetta.“