Frá því að verðlagsmælingar hófust hér á landi árið 1939 hefur ársverðbólga að meðaltali verið 11,2%, á meðan hún hefur verið mun minni í helstu samanburðarlöndum yfir sama tímabil.
Þrátt fyrir að verðbólgudraugurinn hafi verið reglulegur húsgestur hér á landi virðumst við að mati Más Wolfgang Mixa, lektors í fjármálum og hagfræði við Háskóla Íslands, sjá þessa þróun kerfisbundið í neikvæðara ljósi en tilefni er til. Ástæðurnar geta verið margar.
„Það er svo skrýtið að þegar fólk er að spá í gengi hlutabréfa eða útistandandi lánum þá hugsar það alltaf í nafnvöxtum, en þegar kemur að því að bera slíkar eignir og skuldir saman við laun þá vill nafnhækkun launa gleymast ansi hratt,“ segir Már.
Þegar launafólk fái svo launahækkun á móti verðhækkununum líti það gjarnan þannig á það að það hafi nú unnið sér inn hækkunina með dugnaði og elju, og því tengist hún almennri verðbólgu ekki á nokkurn hátt.
Í mörgum tilfellum getur þetta svo tvinnast saman og flækt þannig málið enn frekar. Fólk fær stöðuhækkun, skiptir um starf eða biður um og fær launahækkun sem rennur að miklu leyti upp í kjarasamningsbundna hækkun.
Peningaglýja litað verðtryggingarumræðuna
Már segir peningaglýju, eins og hún er þekkt á fræðimáli, hafa sýnt sig hvað gleggst í umræðum um verðtrygginguna í gegnum tíðina.
Fólki þyki það hræðileg tilhugsun að lánið standi í stað eða jafnvel hækki þrátt fyrir að greitt sé og greitt af því, en horfi lítið til þróunar á markaðsverði eignarinnar eða eigin launa til samanburðar.
„Það er þetta sígilda viðkvæði: „Ég er búinn að greiða svo og svo mikið af þessu láni í gegnum árin en það stendur alltaf í stað,“ segir fólk gjarnan. En bíddu nú við, þú tókst lánið fyrir kannski 20 árum síðan, hver voru launin þín þá? Hver eru þau í dag?“ spyr hann hinn ímyndaða viðmælandann á móti, enda hafi hlutfallið milli launa og höfuðstóls mun meira að segja en krónutalan ein og sér.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.