Greining Stefnis á kaupréttarsamningum stjórnenda í Kauphöllinni hérlendis bendir til þess að samningarnir séu nokkuð staðlaðir og virðast eiga rætur sínar að rekja til ráðgjafarfyrirtækja.
Jón Finnbogason, framkvæmdastjóri Stefnis, kallar eftir því að stjórnir skráðra félaga hugi betur að því hvernig kaupréttarkerfin séu byggð upp.
Kaupréttur er að hans mati langt frá því að vera eina leiðin til að umbuna stjórnendum fyrir vel unnin störf.
Markús Máni Skúlason, hjá markaðsviðskiptum Arion banka, vann greininguna fyrir Stefni sem hluta af svokölluðu útskriftarprógrammi samstæðu Arion banka.
Aðspurður segir hann ljóst að umræðan um kauprétt hérlendis hafi verið afmörkuð og að mestu leyti snúist um vaxtastig nýtingarverðs og umfang kauprétts á meðan aðrir mikilvægir áhrifaþættir hafa fengið minni umfjöllun.
„Til dæmis mætti betur taka tillit til núverandi launastigs stjórnenda í samanburði við sambærileg fyrirtæki hérlendis og á Norðurlöndunum áður en ákvörðun er tekin um að veita kauprétti. Einnig væri ástæða til að leggja mat á hvort kaupréttir séu í raun áhrifarík leið til að tengja saman hagsmuni stjórnenda og hluthafa, eða hvort aðrir kostir bjóði upp á betri lausn,” segir Markús Máni.
Að hans mati ætti jafnframt að meta hvort starfsemi viðkomandi félags kalli í raun á slíkt fyrirkomulag til að halda í lykilstjórnendur með sérþekkingu. Erlendis sé til að mynda mun meiri fjölbreytni í langtíma árangurstengdum greiðslum.
„Hérlendis er aðallega notast við kauprétti þar sem nýtingarverðið hækkar samkvæmt fyrir fram ákveðnu árlegu vaxtastigi. Erlendis er hins vegar algengt að veita hlutabréf þegar tilgreind árangurstengd markmið nást, í staðinn fyrir kauprétti, svokölluð Performance Share Plans. Að mínu mati getur slíkt fyrirkomulag betur tengt saman hagsmuni stjórnenda og hluthafa en hefðbundnir kaupréttir,“ segir Markús Máni.
Spurður um hvort kostnaður fyrir hluthafa af kaupréttum hjá félögum í Kauphöllinni sé mögulega of hár, segir Markús Máni erfitt að svara því.
„Ef byggt er á sögulegri markaðsávöxtun þá virðist árlegur launakostnaður stjórnenda vegna kaupréttar hækka um 15 – 25% á ársgrundvelli. Hluthafar kunna almennt að meta gott gagnsæi í upplýsingagjöf og því mætti greina betur frá þeim forsendum sem lagðar eru til grundvallar um væntanlegan kostnað viðkomandi félags af kauprétti,” segir Markús Máni.
Hann bætir við að vissulega sé væntur kostnaður metinn út frá Black-Scholes-líkaninu, án þess að tilgreina undirliggjandi forsendur útreikninganna, en ekki er víst að allir hluthafar átti sig á merkingu slíkra útreikninga.
Hægt er að lesa ítarlega umfjöllun Viðskiptablaðsins um kauprétt stjórnenda hér.