Laun 200 tekjuhæstu forstjóranna í einkageiranum hækkuðu um 22% milli ára. Jafnvel þau 75 milljóna mánaðarlaun forstjóra Kerecis séu tekin út úr jöfnunni nemur hækkunin ríflega 12%.

Laun 200 tekjuhæstu forstjóranna í einkageiranum hækkuðu um 22% milli ára. Jafnvel þau 75 milljóna mánaðarlaun forstjóra Kerecis séu tekin út úr jöfnunni nemur hækkunin ríflega 12%.

Laun þeirra 200 tekjuhæstu í opinbera geiranum hækkuðu um 25% milli ára. Til samanburðar hækkaði launavísitalan um 6,7% á árinu 2023.

Tvö hundruð tekjuhæstu forstjórarnir á Íslandi voru með að meðaltali 5 milljónir króna í laun árið 2023. Þetta má lesa út úr tölum sem birtust í Tekjublaði Frjálsrar verslunar, sem kom út í gær.

Með 74,8 milljónir

Launahæsti forstjórinn í fyrra, raunar sá langlaunahæsti, var Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri og stofnandi Kerecis. Mánaðarlaun hans námu 74,8 milljónum króna að meðaltali. Ástæðan fyrir þessu háu launum var að Kerecis var selt um mitt ár 2023 á 1,3 milljarða dollara eða um 180 milljarða króna, til danska lækningafyrirtækisins Coloplast. Naut Guðmundur Fertram góðs af því, líkt og aðrir starfsmenn og hluthafar Kerecis. Til samanburðar námu mánaðarlaun hans um 9,3 milljónum árið 2022.

Magnús Eðvald Björnsson átti 5% hlut í Mice & Men.
Magnús Eðvald Björnsson átti 5% hlut í Mice & Men.

Í öðru sæti á tekjulista forstjóra árið 2023 er Magnús Eðvald Björnsson, þáverandi forstjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Men & Mice. Var hann með um 21,3 milljónir í mánaðarlaun að meðaltali í fyrra. Hugbúnaðarfyrirtækið var selt til alþjóðlega félagsins BlueCat Network á árinu 2023 fyrir ríflega 4 milljarða króna og átti Magnús Eðvald um 5% hlut í Mice & Men.

Magnús Steinarr Norðdahl kom til Annata frá LS Retail.
Magnús Steinarr Norðdahl kom til Annata frá LS Retail.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Magnús Steinarr Norðdahl, forstjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Annata, er í þriðja sæti forstjóralistans með 19,2 milljónir króna að meðaltali á mánuði. Magnús Steinar kom til Annata frá LS Retail í lok árs 2022 en á því ári námu tekjur hans 4,7 milljónum króna. Þess má geta að Magnús Steinar hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja, m.a. Mice & Men.

Verulegar hækkanir

Eins og áður sagði þá námu laun 200 tekjuhæstu forstjóranna um 5 milljónum króna að meðaltali á mánuði á síðasta ári. Á árinu 2022 námu laun þeirra 200 hæstu um 4,1 milljón á mánuði. Er þetta 22% hækkun á milli ára.

Há laun Guðmundar Fertram hafa mikil áhrif á samanburðinn. Séu þau tekin út úr jöfnunni námu tekjur 200 hæstu forstjóranna 4,6 milljónum í fyrra samanborið við 4,1 árið á undan. Nemur hækkunin þá ríflega 12% á milli ára.

Hörður Arnarson og Sveinbjörn Indriðason.
Hörður Arnarson og Sveinbjörn Indriðason.

Tekjuhæstu í opinbera geiranum

Í Tekjublaði frjálsrar verslunar er inni listi yfir laun embættismanna, forstjóra og starfsmanna opinberra fyrirtækja. Að meðaltali námu laun þeirra 200 hæstu á þeim lista 2 milljónum króna á mánuði árið 2023 samanborið við 1,6 milljón árið 2022. Nemur hækkunin 25% á milli ára.

Til samanburðar má geta þess að launavísitala hækkaði um 6,7% á árinu 2023, sem þýðir að tekjuhæstu forstjórarnir í einkageiranum og topparnir í opinbera geiranum hækkuðu vel umfram hana.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, var með 4,2 milljónir á mánuði árið 2023 og Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, var með 3,7 milljónir. Sá launahæsti í þessum hópi í fyrra var Ingvar Jónadab Rögnvaldsson, sérfræðingur hjá Skattinum með 4,3 milljónir.

Byggt á útsvari

Launatölur í Tekjublaði Frjálsrar verslunar byggja á útsvarsskyldum tekjum á árinu 2023 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Hafa verður í huga að inni í tekjum getur verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignasparnaði hjá lífeyrissjóði.

Á forstjóralista Tekjublaðsins var Davíð Helgason, stofnandi Unity, flokkaður á meðal forstjóra en hér hefur hann ekki verið talinn á meðal þeirra því mjög langt er síðan hann gegndi stöðu forstjóra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.