Leikbreytir er stórhuga og stefnir félagið á opnun söluskrifstofu í Danmörku á næsta ári. Yngvi Tómasson, framkvæmdastjóri Leikbreytis, segir félagið stefna á mikinn vöxt á næstu árum og skoði því nú að ráðast í hlutafjáraukningu til að styðja við vöxt félagsins á erlendri grundu.
Hann segir Leikbeyti njóta góðs af því að Ísland standi framar hinum Norðurlandaþjóðunum í notkun á „wallet“ lausnum. Landsmenn séu t.d. fyrir þó nokkru orðnir vanir að vera með greiðslukort og ökuskírteini sín í símanum. „Umhverfissjónarmið á borð við minni pappa og plastnotkun hefur einnig hjálpað til við að gera vöruna okkar aðlaðandi, auk þeirra þæginda sem það felur í sér að vera með flest allt sem áður var í kortaveskinu í stafrænu símaveski.“
Þó að Gift to wallet lausnin hafi upphaflega verið þróuð sem gjafakortalausn segir Yngvi að í dag líti Leikbreytir á lausnina sem vistkerfi. „Fyrirtæki tóku lausnina upphaflega inn til að nýta undir gjafakortin en þetta hefur einnig þróast út í að vera ekki síður lausn utan um vildarkerfi,“ segir hann og nefnir dæmi:
„Segjum sem svo að viðskiptavinur versli fjórhjól hjá BRP-Ellingsen og með í kaupunum fylgir 30 þúsund króna gjafabréf í verslanir Ellingsen sem gildir í nokkrar vikur. Viðskiptavinurinn fær þá gjafabréfið inn í símaveskið hjá sér um leið og gengið er frá kaupunum. Lausnin okkar hentar því vel fyrir þessar krosssölur sem eru fyrirtækjum svo mikilvægar. Auk þess hafa viðskiptavinir hag af því að leggja inn á gjafakortið til að fá betri kjör. Loks er til dæmis hægt að auglýsa „tax free“ daga og afslátturinn er þá í formi inneignar sem bætist inn á gjafakortið,“ segir hann og bætir við:
„Eins fylgjumst við náið með þeim breytingum sem PSD2, ný löggjöf um greiðsluþjónustu, hefur í för með sér og sjáum ýmis tækifæri tengd henni fyrir okkar viðskiptavini.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild sinni hér.