Landeldisfyrirtækið Laxey í Vestmannaeyjum lauk í síðustu viku 5 milljarða hlutafjáraukningu, sem nemur um 35 milljónum evra.

Samhliða hlutafjáraukningunni hefur Laxey gert langtímasamkomulag við Arion banka sem felur bæði í sér endurfjármögnun og stækkun á lánalínum vegna fyrsta áfanga, sem og nýja fjármögnun til að styðja við uppbyggingu annars áfanga.

Heildarfjármögnun sem tryggð hefur verið með þessari blönduðu hlutafjár- og lánsfjármögnun nú, nemur alls 19 milljörðum króna. Laxey hefur frá stofnun safnað yfir 17 milljörðum króna í hlutafé, að því er kemur fram í tilkynningu á vef félagsins.

Laxey segir fjármögnunina marka mikilvægt skref í átt að byggja upp ársframleiðslu félagsins í 10.000 tonn á hágæða landeldislaxi (HOG). Félagið stefnir til lengri tíma á allt að 36.000 tonna (HOG) ársframleiðslu á laxi í landeldi í Vestmannaeyjum.

Hlutafjáraukningin vegna áfanga tvö var borin uppi af núverandi hluthöfum, en félagið segir öfluga nýir fjárfestar einnig hafa komið að verkefninu. Fjölskylda Sigurjóns Óskarssonar í Vestmannaeyjum verður áfram leiðandi fjárfestir í félaginu.

Um 20% hlutur er í eigu innlendra og erlendra aðila með mikla reynslu í fiskeldi sem spannar alla virðiskeðju laxeldis – frá fóðri til sölu og markaðsstarfs.

Framkvæmdir á áætlun

Laxey segir uppbyggingu félagsins halda áfram samkvæmt upphaflegri framkvæmdaáætlun en fyrsti áfangi áframeldis sé nú á lokametrunum.

Seiðastöðin, sem var fullbúin í ágúst 2024, er nú í fullum rekstri og framleiðsla hefur farið vel af stað að sögn félagsins. Fimm hópar hrogna hafa nú þegar verið teknir inn og þroskast í samræmi við áætlanir. Framleiðslugeta stöðvarinnar er allt að 4,6 milljónir seiða á ári.

Í áframeldi eru framkvæmdir við fyrsta áfanga á lokastigi og undirbúningur fyrir næsta áfanga þegar hafinn. Tveir hópar seiða hafa verið fluttir frá seiðastöðinni til áframeldis og var fyrsta 5.000 rúmmetra fiskeldiskerið tekið í notkun í apríl. Annað ker verður tekið í rekstur á næstu dögum, en alls eru átta slík ker í hverjum áfanga.

„Þetta skref markar einn stærsta áfanga verkefnisins til þessa og staðfestir að hönnun og framkvæmd virki eins og til var ætlast.“

Undirbúningur er einnig hafinn fyrir slátur- og vinnsluaðstöðu, þar sem stefnt er að fyrstu slátrun haustið 2025, í samræmi við upphaflega tímalínu. Laxey hefur þegar undirritað samninga um tæknibúnað og við samstarfsaðila sem tryggja áreiðanlega og vandaða vinnslu frá fyrsta degi.

Auk framleiðslu á laxi til manneldis mun Laxey nýta hluta af framleiðslugetu sinni til ræktunar stórseiða sem seld verða til annarra laxeldisfyrirtækja.

Félagið segir að með þessari blönduðu nálgun náist meiri sveigjanleiki í rekstri og möguleikar á tekjum áður en matfiskframleiðsla nær hámarki. Sala á stórseiðum til annarra laxeldisfélaga geti dregið úr lúsavandamálum með því að stytta eldistíma í sjó og styrkt rekstraröryggi viðskiptavina.

„Við finnum fyrir miklum áhuga og áframhaldandi trausti til verkefnisins, bæði frá núverandi og nýjum fjárfestum,“ segir Lárus Ásgeirsson, stjórnarformaður Laxeyjar.

„Það er skýr vísbending um að framtíðarsýn okkar – sjálfbært og fjárhagslega sterkt landeldi – eigi fullt erindi bæði í íslenskan sjávarútveg og á alþjóðamarkaði. Sá árangur sem þegar hefur náðst, þar á meðal möguleikinn á tekjumyndun snemma í ferlinu með sölu á stórseiðum, ásamt þeim áhuga sem við finnum frá fjárfestum, staðfestir að við erum á réttri leið.“

Upphaflega var verkefnið hannað með heildarframleiðslugetu upp á 27.000 tonn (HOG), en með bættri nýtingu á tækjum og tankaplássi, innleiðingu á auknu magni stórseiða og viðbót við eldisaðstöðu hefur áætluð heildarframleiðsla nú verið stækkuð í 36.000 (HOG) tonn á ári. Þessi breyting er sögð byggja á þeirri þekkingu sem safnast hefur upp í fyrstu framkvæmdum, ásamt betri tæknilegri útfærslu.

Arion banki var umsjónaraðili hlutafjárútboðsins, en Mar Advisors fjármálaráðgjafar fyrir Laxey.